Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram efnahagstillögur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson eru fyrstu flutningsmenn tillögunnar …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson eru fyrstu flutningsmenn tillögunnar á þingi. mbl.is/Árni Sæberg

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um umfangsmiklar efnahagsráðstafanir, sem eiga flestar samkvæmt tillögunni að vera komnar til framkvæmda um miðjan júlí. Tillögurnar snúa að stöðu heimila, fyrirtækja, ríkisfjármálum, atvinnumálum, peningamálum og fjármálakerfinu.

Meðal þess sem lagt er til er að rýmkuð verði verulega skilyrði þess að heimili geti lækkað greiðslubyrði húsnæðislána. Gert er ráð fyrir að myndaður verði sérfræðingahópur sem fjalli um leiðir til þess að lækka höfuðstól fasteignaveðlána í þeim sérstöku tilvikum þegar almenn greiðsluerfiðleikaúrræði duga ekki. Þá verði stimpilgjöld afnumin til að auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun lána.

Meðal tillagna í ríkisfjármálum eru, að sett verði fram raunhæf áætlun í ríkisfjármálum sem miðast við að á þremur árum verði hallinn án vaxtagjalda horfinn og ríkisfjármál verði sjálfbær. Leggja þurfi áherslu á að stækka skattgrunna í stað þess að auka álögur.

Þá verði skoðað í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að gera kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna til að afla ríkissjóði frekari tekna. Þannig verði inngreiðslur í lífeyrissjóð skattlagðar í stað útgreiðslna eins og nú er. Þessi aðgerð gæti aflað ríkissjóði allt að 40 milljarða króna viðbótartekna án þess að skerða ráðstöfunartekjur launþega og eftirlaunaþega.

Varðandi peningamál er lagt til, að gerð verði athugun á framtíðarfyrirkomulagi gjaldeyrismála og upptöku annarrar myntar, þar með talið könnun á kostum og göllum aðildar að Myntbandalagi Evrópu, verði gerð af utanaðkomandi sérfræðingum.

Þá verði reglum um gjaldeyrishöft breytt þannig að nýjar erlendar fjárfestingar falli ekki undir höftin. Einnig verði þróuð  úrræði til að minnka umfang verðtryggingar og auka framboð óverðtryggðra lána. 

„Aðgerðaleysi stjórnvalda undanfarna mánuði hefur leitt af sér mikinn kostnað og skaða fyrir íslenskt þjóðfélag. Til að mynda hefur nú þegar skapast 20 milljarða kr. viðbótarhalli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári til viðbótar við þann gríðarlega halla sem fyrir er. Seinagangur við að kynna áætlun í ríkisfjármálum og endurreisa bankakerfið og tilheyrandi seinkun vaxtalækkunar hefur valdið miklum skaða í atvinnulífinu og fyrir fjárfestingar," segir í greinargerð með tillögunni.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins

mbl.is