Vilja ekki að Gunnar hætti

Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogs, og Gunnar Birgisson, bæjarstjóri.
Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogs, og Gunnar Birgisson, bæjarstjóri.

Óánægja er meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi með að Gunnar I. Birgisson stígi til hliðar sem bæjarstjóri. Málið er enn í deiglunni og ekki vitað hvað lagt verður til á fulltrúaráðsfundi um málið í kvöld.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs, bauðst í síðustu viku til að láta af starfi bæjarstjóra ef það gæti orðið til þess að greiða fyrir því að framhald yrði á meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Kröfur höfðu komið fram innan raða Framsóknarflokksins um að ekki væri rétt að halda þessu samstarfi áfram, sérstaklega eftir að fram komu upplýsingar um viðskipti Kópavogsbæjar við fyrirtækið Frjálsa miðlun sem er í eigu dóttur Gunnars Birgissonar.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi framsóknarmanna, og Gunnar kynntu hugmyndir um áframhaldandi samstarf á þessum grunni í sínum röðum síðastliðið fimmtudagskvöld. Ekki var um annað rætt, eftir því sem næst verður komist, en að Gunnar yrði áfram bæjarfulltrúi og oddviti flokksins.

Stuðningsmenn Gunnars eru óánægðir með þessa þróun mála og hafa komið upp hugmyndir um að leggja tillögu fyrir fulltrúaráðið um að skora á Gunnar að hætta ekki. 

Málið hefur verið rætt á óformlegum fundum hjá sjálfstæðismönnum undanfarna daga og manna í millum. Niðurstaða er ekki fengin. Gunnar hefur ekki sagt frá því hvernig hann sjái framhaldið fyrir sér og hann kallaði bæjarfulltrúana ekki saman til fundar í gær, eins og til stóð. Afstaða bæjarstjórnarflokksins til þess hvort arftaki Gunnars eigi að koma úr þeirra röðum eða hvort leita eigi annað, liggur því ekki fyrir.

Líklegt er úr þessu að málið skýrist ekki fyrr en eftir fund fulltrúaráðsins sem boðaður hefur verið klukkan átta í kvöld. Þá kynnir Gunnar væntanlega hugmyndir sínar um framhaldið. 

Ómar Stefánsson vildi ekki svara því í gærkvöldi hver yrðu viðbrögð framsóknarmanna ef sjálfstæðismenn tilnefndu ekki nýjan bæjarstjóra. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert