Meiri áhyggjur af yfirstandandi glímu

Steingrímur J. Sigfússon og Elvira Méndez, doktor í Evrópurétti, voru …
Steingrímur J. Sigfússon og Elvira Méndez, doktor í Evrópurétti, voru meðal annarra á pallborði á borgarafundinum. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segist hafa meiri áhyggjur af glímunni, sem nú stendur yfir við endurreisn íslensks atvinnu- og efnahagslífs en Icesave-skuldbindingunum.   

„Ég tel, að því skjóli sem við verðum í fyrir þessu máli (Icesave) í sjö ár, þá verði glíman við erfiðleikana á næstu misserum miklu afdrifaríkari fyrir Ísland," sagði Steingrímur við mbl.is. Hann sagði á borgarafundi í Iðnó í kvöld, að aðrir nærtækari hlutir en Icesave-skuldbindingarnar gætu orðið Íslendingum hættulegir. Á fundinum var samkomilagið um Icesave hins vegar gagnrýnt harðlega og nánast allir sem tóku þar til máls hvöttu til þess, að fellt yrði á Alþingi að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingunum. 

„Hvernig okkur tekst til við endurreisn atvinnulífsins og við úrlausn skuldavanda heimili og fyrirtækja, hvernig við ráðum við þær þungu afborganir, sem eru að falla á okkur á allra næstu árum vegna stórra erlendra lána, sem voru tekin á umliðnum árum og við munum þurfa að endurfjármagna. Hvernig okkur tekst að ræsa  bankakerfið, leysa úr gjaldeyrisvandanum og jöklabréfunum. Þetta eru mál sem ég hef í fullri hreinskilni sagt meiri áhyggjur af en Icesave-málinu," sagði Steingrímur. 

Hann sagði að ef Íslendingum gangi vel við endurreisn efnahagslífsins og þeir fái þessi sjö ár til að koma sér á fæturna þá hefði hann fulla trú á að þjóðin muni ráða við Icesave-lánin, með möguleikum á endurfjármögnun þeirra og dreifingu greiðslna ef á þyrfti að halda.

„Ég er sannfærður um, að  komust við klakklaust gegnum næstu misseri og þá aðsteðjandi erfiðleika sem við glímum við núna, þá verður það ekki þetta sem setur íslenskt þjóðfélag á kné. Við munum ráða við það."

mbl.is