Þjóðin kaus um Icesave í apríl

Þingmenn á Alþingi.
Þingmenn á Alþingi. mbl.is/Eggert

Nokkuð hitnaði í kolunum á Alþingi í dag þegar þingmenn ræddu störf þingsins, þar á meðal um hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samkomulagið. Hróp og köll heyrðust í þingsalnum þegar Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði að þjóðin hefði meðal annars kosið um Icesave í apríl.

Eftir að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hafði beðið þingmenn um að gefa Álfheiði hljóð sagði hún, að þjóðin hefði nýlega falið 63 þingmönnum að leysa úr bankahruninu og því, sem fráfarandi stjórnarliðar skyldu eftir sig.

„Þar á meðal er Icesave, þar á meðal er núna 9% atvinnuleysi, þar á meðal eru skuldaklafar heimila og fyrirtækja, 500 milljarðar í nýtt bankakerfi. Ég verð að segja að Icesave er ekki stærsta málið af þessum málum í mínum huga. Ég treysti þessari ríkisstjórn og þingheimi til að leiða þetta Icesave-mál til lykta," sagði Álfheiður og bætti við að hún teldi ekki nauðsynlegt að bera með Icesace-samninginn undir þjóðaratkvæði.

Þá sagði hún það rangt haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að hann hefði sagt að Icesave-málið væri of flókið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefði sagt, að vandi væri að stilla því upp, hver hinn valkosturinn ætti að vera. 

Síðar í umræðunni benti Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á að ástandið í þingsalnum væri eins og í skólastofu og ræðumenn fengju ekki frið í ræðustól fyrir ókyrrð, frammíköllum og leiðindum.  

mbl.is