Jón dregur umsókn til baka

Jón Magnússon.
Jón Magnússon.

Jón Magnússon, lögmaður og fyrrverandi alþingismaður, hefur dregið til baka umsókn um starf eins þriggja sérstakra saksóknara, sem eiga að rannsaka mál sem tengjast hruni stóru viðskiptabankanna þriggja.  Dómsmálaráðuneytið sendi Jóni bréf þar sem bent var á að skoðanir sem hann hefði lýst á bloggsíðu sinni gætu leitt til þess að verulega myndi reyna á álitaefni um sérstakt hæfi hans sem saksóknara.

Jón segir frá þessu á síðunni í dag og segist þurfa að sæta því, að  almennar skoðanir hans á þjóðfélagsmálum séu taldar þess eðlis að hann sé ekki hæfur til að gegna starfi sérstaks saksóknara.

Vísar Jón í bréf, sem hann fékk frá dómsmálaráðuneytinu þar sem segir, að Jón haldi  úti heimasíðu á veraldarvefnum jonmagnusson.blog.is. „Þar hefur Jón ítrekað tekið til umfjöllunar málefni tengd atburðunum í október 2008 er ríkið tók yfir stjórn viðskiptabankanna þriggja. Hann hefur greint frá skoðunum sínum bæði á mönnum og málefnum í þeim mæli að hætt er við að verulega myndi reyna á álitaefni um sérstakt hæfi hans sem saksóknara í tengslum við þau mál sem embættið hefur til meðferðar," segir í bréfi ráðuneytisins. Er Jóni boðið að skila inn athugasemdum.

Jón segist síðan hafa rita Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, bréf og segir að engin sérstök ummæli séu tilgreind í bréfi ráðuneytisins, en slík framsetning geti vart talist málefnaleg stjórnsýsla og geri það að verkum að ekki séu forsendur til að beita andmælareglu.

Segist Jón telja sig í skrifum sínum hafa sett fram sjónarmið sem lúti að almennum viðhorfum og leitast við að halda þeirri grunnreglu á lofti að menn séu saklausir þar til sekt þeirra sé sönnuð.  „Hafa stærri orð fallið af hálfu einstaklinga sem tengjast rannsóknum sérstaks saksóknara án þess að gerðar hafi verið sérstakar athugasemdir.  Virðast þær yfirlýsingar falla betur að pólitísku viðhorfi samtímans," segir Jón og tilkynnir síðan að hann hafi dregið umsókn sína til baka.

Tólf sóttu upphaflega um embætti þriggja sjálfstæðra saksóknara við embætti sérstaks saksóknara. Tveir hafa nú dregið umsóknirnar til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert