Hreyfingin verður til

Frá blaðamannafundi þingmanna Borgarahreyfingarinnar í dag.
Frá blaðamannafundi þingmanna Borgarahreyfingarinnar í dag. mbl.is/Ómar

Þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar og tveir varaþingmenn hafa komið sér saman um stofnun nýrrar hreyfingar undir heitinu Hreyfingin. Þau Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari kynntu þetta á blaðamannafundi í dag.

Eftir þetta er enginn eftir í þingmannahópi Borgarahreyfingarinnar þar sem Þráinn Bertelsson sagði sig frá Borgarahreyfingunni í sumar vegna ágreinings við aðra þingmenn hreyfingarinnar.

Í yfirlýsingu frá hópi fólks sem stendur að stofnun Hreyfingarinnar kemur fram að markmið nýrrar hreyfingar sé að framfylgja upprunalegri stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar og veita grasrótarhreyfingum rödd á Alþingi. Hópurinn mun innan skamms leggja fram samþykktir sem miða að því að lágmarka miðstýringu og opna fleiri en skráðum meðlimum þátttöku, enda verði ekki haldið sérstaklega um félagaskrá.

Ályktun frá þinghópi Hreyfingarinnar

„Þinghópur Hreyfingarinnar hafnar alfarið tilraunum Breta og Hollendinga til að reyna að hafa áhrif á þá fyrirvara sem Alþingi setti við ríkisábyrgðina vegna Icesave skuldbindingana. Krafa Breta og Hollendinga gerir þá efnahagslegu fyrirvara sem þverpólitísk sátt náðist um á Alþingi að engu og setur málið á byrjunarreit.

Þinghópurinn átelur einnig ríkisstjórnina fyrir þann blekkingarleik sem felst í því að kynna afstöðu Breta og Hollendinga sem jákvætt innlegg í málið þegar staðreyndin er sú að krafa þeirra kippir algerlega fótunum undan þeim efnahagslegu fyrirvörum sem ríkisábyrgðin byggir á."

Sjá nánari upplýsingar hér

 
mbl.is

Bloggað um fréttina