253 milljarða skuldbinding

Verði endurheimtur af eignum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi nálægt 90%, eins og síðustu spár gerðu ráð fyrir, er áætlað að skuldbinding Íslendinga vegna Icesave-reikinganna myndi nema um 253 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu um nýtt frumvarp, sem fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi undir kvöld og snýst um ríkisábyrgð á lánum, sem Bretar og Hollendingar veita Íslandi til að standa straum af greiðslum til innistæðueigenda á Icesave-reikningum Landsbankans. Fjallað verður um frumvarpið á Alþingi á morgun.

Gert er ráð fyrir að greitt verði af láninu frá árinu 2016 til ársins 2024 og raunar lengur ef það verður ekki þá greitt að fullu. Fjármálaráðuneytið segir, að mikil óvissa sé um efnahagshorfur til svo langs tíma og þar með um endanlega útkomu skuldbindinga samkvæmt samningunum og hvernig þær falla til í tíma. Vöxtur vergrar landsframleiðslu, gengisþróun og endurheimtur af eignum Landsbankans séu þó þau atriði sem hafa mest áhrif á hversu mikil heildarbyrði þjóðarbúsins verður að lokum. 

Ekki kom til greina að lánin myndu hugsanlega falla niður

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um viðræður íslenskra embættismanna við Breta og Hollendinga eftir að Alþingi samþykkti lög í ágústlok um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna og fyrirvara vegna þeirrar ábyrgðar.

Í lögunum var m.a. kveðið á um, að ríkisábyrgðin félli niður árið 2024 og að teknar yrðu upp viðræður aðila um framhaldið yrði ekki búið að greiða lánin niður þá.

Í greinargerð með nýja frumvarpinu segir, að skiptar skoðanir hafi verið um hvort eftirstöðvar lánanna falli að öllu leyti niður ef sú staða kæmi upp í lok lánstímans að lánasamningarnir hafi ekki verið að fullu efndir. Sumir hafi viljað túlka fyrirmælin á þann veg en aðrir að þau kvæðu eingöngu á um viðræður um framhald málsins.

„Af hálfu breskra og hollenskra stjórnvalda kom fram að óviðunandi væri að lánin mundu hugsanlega falla niður árið 2024 á grundvelli ákvæða laga nr. 96/2009. Að þeirra mati varð að breyta þessu ef samningar ættu að vera í gildi á milli aðila. Í þessu samhengi var vísað til venju í alþjóðlegum lánasamningum, ekki síst þeim sem fullvalda ríki eiga aðild að," segir í frumvarpinu.

Niðurstaðan var sú, að í þeim samningum, sem gengið var frá við Breta og Hollendinga á laugardaginn er orðið óumdeilt að eftirstöðvar lánanna munu aldrei falla niður jafnvel þótt greiðsluhámarkið leiði til þess að afborganir séu ekki að fullu greiddar.

Frumvarpið í heild

mbl.is