Skötuilmur á Baldursgötunni

Úlfar Eysteinsson á Þremur frökkum undirbýr skötuveislu dagsins
Úlfar Eysteinsson á Þremur frökkum undirbýr skötuveislu dagsins mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjölmargir Íslendingar borða skötu í dag og velja ýmsir að borða hana á veitingahúsi meðal annars vegna lyktarinnar.  Úlfar Eysteinsson veitingamaður á Þremur frökkum býður upp á skötu á stað sínum í dag en von er á hátt í 600 manns á staðinn í dag.

Að sögn Úlfars mættu 560 manns í skötu á Þrjá frakka á Þorláksmessu í fyrra og er von á svipuðum fjölda í dag. Staðurinn er opinn frá klukkan 11-23 þannig að Úlfar á von á því að standa við skötupottinn langt fram eftir kvöldi.

Hann segir að margir gestanna komi ár eftir ár, þeir einfaldlega leggi inn pöntun fyrir næsta ár áður en þeir yfirgefa staðinn á Þorláksmessu. Algengt er að samstarfsfólk taki sig saman um að fá sér skötu á Þorláksmessu en eins eru vinahópar og fjölskyldur meðal gesta. 

Ekki eru allir jafn hrifnir af skötunni og býður Úlfar gestum sínum upp á plokkfisk, gellur og jafnvel skötu í hvítlauk ef þeir treysta sér ekki í skötu með hefðbundnu sniði.

Geir Vilhjálmsson fisksali í Hafbergi sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum að þeir verki alla sína skötu sjálfir og hafi gert í fimmtán ár. Hann sagði að þeir byrjuðu að safna skötu í janúar og frysta. Skötunni er safnað allt þar til kominn er tími til að hefja verkunina. Í Hafbergi eru verkuð 3,5-4 tonn nú líkt og í fyrra.

Fyrst er skatan látin kæsast þar til hún þykir orðin hæfilega sterk og þá er hún léttsöltuð. Skatan er svo útvötnuð og seld tilbúin í pottinn. Einnig er boðið upp á eitursterka kæsta tindabikkju.

Þorláksmessa er dánardagur Þorláks Þórhallssonar Skálholtsbiskups sem var útnefndur heilagur maður fimm árum eftir dauða sinn. Hinn 20. júlí árið 1237 voru bein hans tekin úr jörðu og lögð í skrín og sá dagur var tilnefndur sem Þorláksmessa á sumar. Eftir siðaskipti og afnám dýrlingatrúar hvarf sumarmessan úr tölu opinberra helgidaga en vetrarmessan hélt nokkru af sínum veraldlega sessi.

Gestir byrjuðu að streyma inn á Þrjá frakka um ellefu …
Gestir byrjuðu að streyma inn á Þrjá frakka um ellefu leytið í morgun mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is