Gæti gosið með skömmum fyrirvara

Hekla séð frá Búrfelli í dag. Myndin er úr vefmyndavél …
Hekla séð frá Búrfelli í dag. Myndin er úr vefmyndavél Ríkisútvarpsins og embættis ríkislögreglustjóra.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun HÍ, telur að eldgos í Heklu geti hafist með skömmum fyrirvara. Óvíst er þó hvenær það verður. Hann telur að merki um breytingar á jarðhita á yfirborði fjallsins þurfi ekki endilega að vera fyrirboði eldgoss.

Ríkisútvarpið  greindi frá því í dag að nokkrir hafi hringt til Veðurstofunnar undanfarna daga og vakið athygli á auðum blettum ofarlega á Heklu. Erlendur Ingvarsson, bóndi á Skarði í Landssveit, sagði í samtali við RÚV að auð rönd á fjallinu sé óvenjuleg miðað við kuldann undanfarið.

Freysteinn sagði breytingar á jarðhita á Heklu geti verið afleiðing aukinnar þenslu á síðustu árum sem greikki hitanum leið til yfirborðsins. 

Skemmra hefur verið á milli síðustu eldgosa Heklu en venjan var áður. Undanfarið hafa liðið um 10 ár á milli gosa í stað þess að þau væru eitt til tvö á öld. Hekla gaus síðast 26. febrúar 2000.

Freysteinn segir að ein skýring á breyttri goshegðun Heklu sé að kvikan í gosrás sem gengur upp úr kvikuhólfi eldfjallsins hafi ekki storknað fyllilega síðustu áratugina. Það gæti þýtt að einungis 2-3 km séu niður á bráðna kviku undir eldfjallinu.

Talið er að kvikuhólfið undir Heklu sé á um 15 km dýpi, sem er mun dýpra en undir sumum öðrum af virkustu eldfjöllum landsins.  Freysteinn sagði að bergið á því dýpi sé mun heitara og veikara en þar sem grynnra er á kvikuhólfin. Af þessari ástæðu telur Freysteinn ríkja meiri óvissu um hvenær næsta gos verði í Heklu en þar sem kvikuhólf standa grynnra. 

Talið er að bergkvika hafi safnast jafnt og þétt fyrir í kvikuhólfi Heklu frá því í síðasta gosi.  Freysteinn sagði vísbendingar um að þrýstingur í kvikuhólfinu hafi náð sama stigi og þegar síðast gaus fyrir  ári eða jafnvel tveimur árum síðan.

Landris við Heklu mælist í millimetrum eða sentimetrum á ári hverju. Freysteinn segir landrisið vera langtímafyrirboða um eldgos. „Úr þessu teljum við að skammtímafyrirboðinn fyrir eldgos verði hreinlega þegar kvikan byrjar að brjóta sér leið upp þessa síðustu kílómetra til yfirborðs,“ sagði Freysteinn. „Þá er stuttur viðvörunartími - einn til tveir klukkutímar.“

Það sést bæði á jarðskjálftamælum og þenslumælum Veðurstofunnar þegar kvikan leggur af stað til yfirborðsins úr kvikuhólfinu. Mönnum er í fersku minni þegar tilkynnt var um yfirvofandi Heklugos í útvarpi þann 26. febrúar 2000. 

Á vef Ríkisútvarpsins má fylgjast með Heklu í gegnum vefmyndavél

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert