Mikill niðurskurður á Álftanesi

Opnunartími sundlaugarinnar á Álftanesi verður skertur.
Opnunartími sundlaugarinnar á Álftanesi verður skertur. mbl.is/Heiðar

Mikill samdráttur er framundan í rekstri sveitarfélagsins Álftaness samkvæmt skýrslu til eftirlitsnefndar sveitarfélaga, sem verið er að fjalla um á fundi bæjarstjórnar.  

Pálmi Þór Másson, bæjarstjóri kynnti skýrsluna á bæjarstjórnarfundi, sem nú stendur yfir. Sagði Pálmi, að skýrslan staðfesti erfiða fjárhagslega stöðu og vangetu sveitarfélagsins að taka á þeim vanda eitt síns liðs.

Tillögurnar í skýrslunni snúa einkum að rekstri þar sem gert er ráð fyrir mikilli hagræðingu næstu tvö ár, að sögn Pálma. Hann sagði að allir rekstarliðir verði skoðaðir, þó þannig að ekki yrði gengið of nærri grunnþjónustu.

Meðal annars á að skera á niður í rekstri grunnskóla og leikskóla, enginn vinnuskóli verður í sumar, starf tómstundafulltrúa verður lagt niður, opnunartími sundlaugarinnar skertur, íþróttastyrkir til félagasamtaka lækkaðir, tómstundastyrkir til foreldra lagðir niður, starf byggingarfulltrúa verður aflagt, viðhald gatna verður í algeru lágmarki og dregið verður úr viðhaldi fasteigna sveitarfélagsins, svo nokkuð sé nefnt.

Þá er fjallað um skuldir við lánastofnanir og skuldbindandi samninga við félögin Fasteign, Búmenn og Ris, sem eru verulega íþyngjandi fyrir sveitarfélagið, að sögn bæjarstjóra. Pálmi sagði, að ekki væri lagt til að gengið verði til nauðasamninga við lánardrottna. Slíkt hefði ekki aðeins áhrif á framtíð sveitarfélagsins heldur hefði einnig áhrif á lánshæfismat allra sveitarfélaga á landinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina