Margt gott gert innan bankanna

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þjóðfélagsumræðan er óvægin og gefur ekki sanna mynd af því sem er að gerast hvað varðar endurskipulagningu fyrritækja. Þetta sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag. Gylfi segist geta fullyrt að margt gott sé verið að gera án þess að það veki athygli fjölmiðla.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf utandagskrárumræðu um afskriftir og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum. Hann hóf ræðu sína á því að gagnrýna Gylfa og sagðist ekki ætla að spyrja hann spurninga, þar sem hann svarar þeim aldrei. Þá sagði hann það ekki hafa tekist að skapa gagnsæi og jafnræði þegar kemur að endurskipulagningu fyrirtækja.

Gylfi sagði það mjög mikilvægt að vinnan sé hafin af fullum krafti, þó hún verði aldrei gerð þannig að öllum líki. Hann segir umræðuna hafa verið harða og óvæga en ekki gefa sanna mynd af stöðunni. „Þjóðfélagsumræðan er miklu verri en ástandið gefið tilkynna,“ sagði Gylfi og bætti við að gagnrýnin mætti ekki verða til þess að draga kjark úr bankamönnum til að taka ákvarðanir. „Það má ekki hrekja bankanna til að taka engar ákvarðanir.“

Hann sagði mikilvægasta hagsmunamálið að fjárhagslega endurskipulagningin takist vel, án þess að fyrirtækin hætti í stórum stíl rekstri, að framleiðsla þeirra stöðvist og starfsfólk þeirra missi störf sín. Hann sagði stöðuna versta hjá þeim eignarhaldsfélögum sem stofnuð voru í kringum spilaborgir sem flestar ef ekki allar hafa hrunið til grunna. Þau verði ekki endurreist.

Engin pólitísk forysta

Guðlaugur Þór sagði athyglisvert að heyra það hjá ráðherra að góðir hlutir væru að gerast, því forsætisráðherra tali á aðra vegu. „Þetta sýnir kannski vandann, það er engin pólitísk forysta í landinu,“ Guðlaugur sagði óásættanlegt að þau skilaboð séu send út, að þeir sem fóru hvað óvarlegast í rekstri sínum fái besta fyrirgreiðslu.

Gylfi bætti síðar við að umræðan geti verið hættuleg, og hægt sé að ganga of langt, svipta menn eignum án dóms og laga á grundvelli orðspors. Það vilji menn ekki gera enda verði að standa vörð um réttarríkið, þó svo farið sé varlegar eftir hrun bankanna. 

Einnig sagði Gylfi að íslenskum bönkum og fjármálafyrirtækjum hafi verið falið mjög erfitt verkefni. Það verði að treysta þeim, án þess þó að það sé blint traust. Fylgst er náið með þeim og til þess eru ákveðin tæki sem verði beitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert