Verkfallið bannað til 30. nóvember

Fólk hefur beðið í Leifsstöð frá því í morgun.
Fólk hefur beðið í Leifsstöð frá því í morgun. mbl.is/Einar

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, lagði nú eftir hádegið fram lagafrumvarp um að stöðva verkfall Flugvirkjafélagsins, sem hófst í nótt. Samþykkt var með 45 atkvæðum gegn einu að taka frumvarpið á dagskrá Alþingis en samkvæmt því er verkfallið bannað til 30. nóvember.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, var einn á móti því að veita afbrigði frá þingsköpum svo hægt væri að fjalla um frumvarpið. Sagði að ekki hefði tíðkast að setja lög á verkföll nema brýnir öryggishagsmunir þjóðarinnar væru í húfi. Sagði hann að þingmenn ættu að velta því vel fyrir sér hvað þeir væru að gera.  

Kristján mælti síðan fyrir frumvarpinu og sagði að flugvirkjar hefðu staðið fast á kröfum sínum um verulega hækkun launa, sem væru úr öllum takti við launaþróun í samfélaginu. Hefði félagið fengið boð um umtalsvert meiri kjarabætur en aðrir sambærilegir hópar hefðu fengið.

Sagði Kristján, að verkefni hefðu tapast úr landi vegna aðgerða flugvirkja. Þá hefði verkfallið þegar valdið mikilli röskun flugs til og frá landinu. Myndi verkfallið valda íslensku þjóðfélagi verulegu tjóni.

Í frumvarpinu er kveðið á um að vinnustöðvun flugvirkja hjá Icelandair sé bönnuð til 30. nóvember. Þar segir, að nægilegt svigrúm eigi að vera fyrir samningsaðila að ná samkomulagi um nýjan kjarasamning. Væntanleg lög eiga að taka gildi strax og Alþingi samþykkir þau.

mbl.is