Um 200 metra hraunfoss

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Ragnar Axelsson

Virkni eldgossins á Fimmvörðuhálsi er svipuð í dag og hún var í gær, að sögn Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings. Hann var við gosstöðvarnar í dag. Um 200 metra hár hraunfoss féll þá niður í Hrunagil. Miklar gufusprengingar voru þegar snjór í gilinu hvellsauð.

„Það er ekki mikil breyting nema það er að fækka gígunum. Gígbrúnin hækkar og er eiginlega orðin samfellt fjall eða fell, alveg nýtt. Þarna eru fjórir eða fimm virkir gígar,“ sagði Haraldur. Hann sagði að þegar gígbrúnin hækki þrengi að gígunum og þeir verði færri. Eftir verði fáir stórir gígar.

Hátt í 200 metra hár hraunfoss

„Það er töluvert hraunrennsli. Það kom ansi mikið hraun nú fyrir tveimur tímum niður í gljúfrið [Hrunagil] og urðu töluverðar sprengingar út af því. Hraunið kom þar í töluverðan snjó sem hvellsauð og myndaði gufu. Þetta tætir upp hraunið. Það urðu sprengingar og töluverðir öskubólstrar sem risu upp af því. Þarna myndaðist hraunfoss sem var sennilega hátt í 200 metrar á hæð og féll niður í gljúfrið,“ sagði Haraldur. 

Hann sagði að hraunið haldi áfram niður Hrunagilið og væntanlega áfram niður í Þórsmörk. Ekki er vitað hvað hraunið er komið langt en Haraldur telur að það sé enn í gljúfrinu. Eftir einhverja daga geti það farið að renna fram á eyrarnar fyrir neðan. Af því geti orðið afleiðingar fyrir Krossá og rennsli hennar.

Svipar til Öskjugossins 1961 og Vestmannaeyjagossins 1973

Haraldur sagði að eldgosið sé hraungos þar sem upp komi hraun og gjall. Honum finnst það svipa til Öskjugossins 1961 og eins dálítið líkt Eldfellsgosinu í Vestmannaeyjum 1973. Það hlaði upp stórum gjallgíg. 

„Við vitum að þetta er 1.150 til 1.200°C heit hraunkvika, mjög heit. Það er búið að gera efnagreiningu á henni. Þetta er basaltkvika,“ sagði Haraldur.

Míla og Vodafone hafa sett upp vefmyndavélar þar sem hægt er að fylgjast með gosinu

Haraldur Sigurðsson (t.h.) við gosstöðvarnar ásamt Birgi Óskarssyni jarðvísindamanni. Gríðarlegar …
Haraldur Sigurðsson (t.h.) við gosstöðvarnar ásamt Birgi Óskarssyni jarðvísindamanni. Gríðarlegar sprengingar voru þegar brennheitt hraunið rann yfir snjóinn. Ragnar Axelsson
Hægt var að virða fyrir sér samspil náttúruaflanna á Fimmvörðuhálsi …
Hægt var að virða fyrir sér samspil náttúruaflanna á Fimmvörðuhálsi í dag. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert