Vilja koma til móts við þá sem tóku bílalán

stjórn Íslandsbanka samþykkti á fundi sínum í dag, að bankinn ætli að vinna að samkomulagi við stjórnvöld til að koma til móts við þá einstaklinga sem tóku bílalán í erlendri mynt.

Þetta kom fram í máli Birnu Einarsdóttur, bankastjóra, á aðalfundi bankans í dag. Sagði hún, að nýleg skýrsla Seðlabanka Íslands sýndi að vandinn væri hvað stærstur hjá þessum hópi og að í mörgum tilfellum myndi slíkt samkomulag  hafa í för með sér frekari lækkun á höfuðstól þeirra bílalána sem hafi hækkað hvað mest.

Birna sagði að um 1200 viðskiptavinir hafi nýtt sér höfuðstólslækkun verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Að sama skapi hafi um 3100  nýtt sér höfuðstólslækkun vegna bílasamninga. Þá hafa um 800 fyrirtæki nýtt sér höfuðstólslækkun vegna fjármögnunarsamninga hjá Íslandsbanka Fjármögnun. Einnig kom fram að bankinn er að kynna samskonar lausnir fyrir fyrirtæki sem eru með lán í erlendri mynt en tekjuflæði í íslenskum krónum. 

mbl.is