Kína hjálpaði Íslandi

Við Torg hins himneska friðar.
Við Torg hins himneska friðar. Reuters

Fulltrúar kínverskra stjórnvalda í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins beittu áhrifum sínum til að tryggja afgreiðslu lánsáætlunar sjóðsins til handa Íslendingum. Sendiherra Kína staðfesti þetta en hann segir æðstu valdamenn Kína og Íslands að baki nýtilkomnum gjaldeyrissamningi sem sé með fádæmum.

Su Ge, nýr sendiherra Kína, ræddi við fulltrúa tveggja íslenskra fjölmiðla síðdegis í Vesturbænum í dag en þar kom fram að Kínverjar séu reiðubúnir að skoða víðtækari efnahagssamvinnu en sem nemur þeim 66 milljörðum króna sem áðurnefndur samningur kveður á um. 

Aðeins sex til sjö ríki hafi fengið viðlíka samning við kínverska seðlabankann.

Su telur aðstoð Kínverja innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa haft áhrif en lét þar við sitja í greiningu sinni.

Hver áhrifin voru kann að skýrast síðar en eins og Morgunblaðið hefur greint frá hafa Bretar og Hollendingar verið sakaðir um að tefja framgang lánsáætlunarinnar til að þvinga fram hagstæðan samning í Icesave-deilunni. 

Su ræddi aðdraganda samningsins en í máli hans kom fram að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Hu Jintao Kínaforseti hafi átt í viðræðum eftir fjármálahrunið, líkt og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. 

Þessi samskipti séu aðdragandi þess að formleg samvinna ríkjanna hafi nú verið aukin með ofangreindum hætti.

Su var spurður um þá túlkun að mögulegt mikilvægi Íslands sem umskipunarhafnar vegna opnunar norðausturleiðarinnar samfara bráðnun íss á norðurhveli jarðar annars vegar og mögulegar olíulindir við landið hins vegar séu að baki áhuga risaveldisins á samvinnu við dvergríkið.

Svaraði Su þá því til í löngu máli að Kínverjar væru ekki að velta fyrir sér pólitískum sviðsmyndum áratugi fram í tímann heldur væru þeir fyrst og fremst að leggja vinaþjóð hjálparhönd á erfiðum tímum.

Ljóst er að samskipti ríkjanna geta orðið mun sjáanlegri í náinni framtíð því Su boðar aukna verslun, auk þess sem Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra muni senn sækja Kína heim til að kynna Ísland sem ferðamannastað.

Kínverjar eru sem kunnugt er ríflega 1.300 milljónir og gæti brot af vel stæðum ferðamönnum þaðan því vegið þungt í hagkerfi sem er aðeins með um 1.500 milljarða króna í þjóðarframleiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina