Biskup segir ekki af sér

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands MorgunblaðiðSkapti Hallgrímsson

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagðist í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld engar forsendur hafa til að rengja frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur af því að faðir hennar, Ólafur Skúlason, hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi.  Karl sagðist ekki telja ástæðu til að hann segði af sér embætti vegna aðkomu sinnar að máli tveggja kvenna sem árið 1996 sökuðu Ólaf um kynferðisbrot.

Karl neitaði því alfarið að hann hefði hvatt konurnar til að draga til baka ásakanirnar á hendur Ólafi. Hann lagði áherslu á að hann, sem prestur á þeim tíma, hafi komið að málinu að beiðni kvennanna tveggja sem vildu ná fram sáttum við kirkjuna. Önnur þeirra, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, hafi viljað afsökunarbeiðni frá biskup en hin hafi viljað draga ásökun sína til baka.

Aðspurður hvers vegna hann teldi að hún hefði viljað falla frá ásökunum nefndi biskup þrýsting samfélagsins. „Það var mikill þrýstingur frá samfélaginu held ég, mikill æsingur og ég upplifði það þannig að það væri af þeim toga, álagið væri of mikið og ásakanir á alla kanta."

Karl sagðist ekki hafa „leyfi til að véfengja" frásögn kvennanna af kynferðisbrotum Ólafs og sagðist heldur ekki hafa forsendur til að efast um frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur, á fundi með kirkjuráði í liðinni viku þar sem hún lýsti kynferðisbrotum föður síns gegn sér sem barni og unglingi.

Biskup sagði jafnframt að tillaga sr. Sigríðar Guðmarsdóttur um að skipuð yrði n.k. sannleiksnefnd til að rannsaka m.a. kynferðisbrotamálin á hendur Ólafi Skúlasyni, og einnig hvort kirkjan hafi gerst sek um að þagga þau niður, sagði Karl að hugmyndin væri fullrar athygli verð og að hún og aðrar leiðir til að vinna úr málinu yrðu skoðaðar. Sagðist Karl m.a. hafa rætt þetta á fundi með dómsmálaráðherra í dag.

Aðspurður um þagnarskyldu presta ítrekaði biskup fyrri yfirlýsingu sína um að lögbundin tilkynningaskylda til barnaverndaryfirvalda væri ríkari en trúnaðarskyldan.  Hann sagðist eiga eftir að ræða við sr. Geir Waage vegna yfirlýsinga hans um algjöra þagnarskyldu. „Ég stend alveg fastur á því að embættismaður kirkjunnar, hann hefur unnið eið að því að lúta lögum íslenska ríkisins, hann er skyldur að gera það."

Aðspurður hvort hann teldi sig njóta trausts þess stóra hluta íslensku þjóðarinnar sem er skráður í þjóðkirkjuna játti biskup því. „Ég tel mig gera það já, ég tel mig ekki hafa gert það af mér að ég skuldi það að ég segi af mér, en ég verð að lúta því ef menn meta það þannig, þeir sem um þau mál fjalla. En ég mun ekki á þessu stigi gera það."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert