Fyrrum biskup kaþólskra kærður fyrir kynferðisbrot

Johannes Gijsen.
Johannes Gijsen.

Ásakanir hafa komið fram í Hollandi á hendur Johannes Gijsen, fyrrum biskup kaþólskra á Íslandi, um að hann hafi sýnt piltum kynferðislega áreitni fyrir nokkrum áratugum. Hafa hollenskir fjölmiðlar fjallað um málið í dag en Gijsen vísar þessum ásökunum á bug.

Fram kemur í blaðinu The Telegraaf að biskupsdæmið í Roermond, þar sem Gijsen þjónaði í tvo áratugi áður en hann kom til Íslands, hafi vitað um kvartanir vegna hans. 

Að minnsta kosti tveir karlmenn hafa lagt fram kærur vegna Gijsen. Fram kemur í blaðinu NRC Handelsblad, að 63 ára karlmaður hafi kært kynferðislega misnotkun, sem hann hafi sætt í skóla í Rolduc á árunum 1959-1961. Hafi annar prestur nauðgað sér þrívegis og einnig hafi Gijsen sýnt honum og fleiri drengjum kynferðislega áreitni. Hafi hann m.a. fróað sér framan við drengi og lagst upp í rúm til þeirra.  

Gijsen varð biskup kaþólskra hér á landi árið 1996 og gegndi því embætti í nærri 12 ár, eða til 2008. Hann er 78 ára að aldri. Handelsblad segir, að þegar Gijsen hafi verið biskup í Roermond á árunum 1972-1993 hafi hann verið umdeildur vegna íhaldssamra viðhorfa sinna. Hann hafi einnig gefið yfirlýsingar um að samkynhneigð væri óeðlileg. 

Frétt NRC Handelsblad

mbl.is