Kvennaskólinn í Miðbæjarskólann

Miðbæjarskólinn verður Kvennaskólinn á næsta ári
Miðbæjarskólinn verður Kvennaskólinn á næsta ári mbl.is/Júlíus

Borgarráð hefur samþykkt að afhenda Kvennaskólanum húsnæði Miðbæjarskólans til umráða frá og með 1. febrúar á næsta ári. Ef allt gengur að óskum ætti því starfsemi Kvennaskólans að geta hafist í skólanum haustið 2011. Starfsemi Reykjavíkurborgar í húsinu flyst í húsnæði borgarinnar við Höfðatorg.

Borgarráð hefur samþykkt yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf ríkis og borgar í húsnæðismálum reykvískra framhaldsskóla til ársins 2014.

Í fréttatilkynningu kemur fram að borg og ríki hafi verið í samstarfi um uppbyggingu framhaldskólanna í borginni allt frá árinu 2003 til ársins 2010. Nú hefur borgarráð samþykkt að framlengja samkomulagið til ársins 2014. 

„Framlengingin felur ekki aðeins í sér  afnot Kvennaskólans af Miðbæjarskólanum því lokið verður við framkvæmdir á húsnæði  Fjölbrautarskólans í Ármúla og  hafist handa við úrbætur á húsnæði Menntaskólans við Sund á samningstímanum," segir í fréttatilkynningu.

Jón Gnarr, borgarstjóri, lýsti yfir ánægju sinni með framlengingu samningsins. „Með honum leggur Reykjavíkurborg sitt að mörkum til uppbyggingar framhaldsskólanna og þess að starfsemi Kvennaskólans verði áfram í miðborginni. Ungt fólk gerir miðborgina líflegri og skemmtilegri,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu.

mbl.is