Erfitt efnahagsástand út 2012

Kristján Þór segir stöðuna í efnahagsmálum verða erfiða á næstu …
Kristján Þór segir stöðuna í efnahagsmálum verða erfiða á næstu 24 mánuðum. Stjórnvöldum hafi ekki tekist að styrkja skattstofna. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Ástand efnahagsmála verður erfitt á næsta ári og á árinu 2012, að mati Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Kristján Þór, sem á sæti í fjárlaganefnd Alþingis, gagnrýnir harðlega hvernig staðið er að breytingum á fjárlögum. Þau feli að óbreyttu „feigðina í sér“.

Kristján telur stjórnvöld bregðast rangt við samdrætti í skatttekjum. 

„Þarna er um að ræða mjög miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinnu. Forsendur þess voru brostnar þegar það var lagt fram og nú horfum við fram á tekjufallið í tengslum við nýja þjóðhagsspá fyrir næsta ár og varað hafði verið við. Því er mætt með þeim hætti að hræra áfram í ákveðnum stærðum, í stað þess að reyna að skapa auknar tekjur með því að örva atvinnurekstur í landinu eða skera niður á móti þessum útgjaldauka.

Til þess að mæta útgjöldum eiga útgjöld á sviði félagsmála að dragast saman. Þar má nefna framlög til öldrunarmála og lífeyristrygginga, ásamt því sem þarna fellur niður fjárveiting sem ætluð var til að mæta kostnaði vegna ríkisábyrgða og einnig lækka framlög í atvinnuleysistryggingasjóð og vaxtagjöld.“

Milljarðar í aukin útgjöld

Hann bendir á þátt húsaleigubóta. 

„Það koma inn aukin úgjöld upp á 8-9 milljarða af ýmsum toga. Stærstu breytingarnar eru í Jöfnunarsjóði, vegna húsaleigubóta og stuðnings við fjárhagslega veik sveitarfélög. Gjöldin eru töluvert hærri en ég reiknaði með.“

Mistekst að koma böndum á fjárlagahallann

- Hvernig finnst þér staðið að fjárlagagerðinni?

„Ég dreg þetta einfaldlega saman þannig að miðað við það vinnulag og verklag sem viðhaft hefur verið við þessa fjárlagagerð að þá er vandséð að við náum tökum á því gríðarlega mikla verkefni sem er að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs með einhverjum skynsamlegum hætti.

Þegar ráðherrar í ríkisstjórn leiða flótta stjórnarliða undan eigin tillögum við fjárlagagerðina er ekki við góðu að búast. Enn standa út af útgjaldaliðir sem eiga eftir að koma inn og nægir í því sambandi að nefna kostnað ríkissjóðs vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin ætlar að grípa til varðandi skuldamál heimila og fyrirtækja.

Ríkisstjórnin er bundin við það eitt að reyna að skera niður útgjöld og hækka skatta. Það er eins og hún sjái ekkert út fyrir þetta. Og á meðan hún horfir ekkert til þess að láta tekjustofna ríkissjóðs vaxa að þá að sjálfsögðu kemst hún ekki út úr þessum vítahring.“

Ber dauðann í sér

Kristján segir útlitið dökkt. 

„Þetta ber í sér feigðina, vegna þess að við þurfum á því að halda að styrkja skattstofnana sem ríkissjóður hvílir á. Það er alveg ljóst að álögur eru að aukast á einstaklinga og fyrirtæki. Það er verið að ræða bandorminn sem kallar á skattahækkanir hér og þar og út um allt. Við erum líka að sjá það að sveitarfélög eru sum hver að gera breytingu á skattlagningu og þjónustugjaldskrám.

Ég met þetta þannig, að öllu óbreyttu, að því miður verði fjárlagagerð fyrir árið 2012 ekki auðveldari heldur en fjárlagagerð fyrir árið 2011. Þetta verði mjög erfið ár. Það er ekki að sjá nein teikn um það í fjárlögunum sem við erum að eiga við núna að við séum að sigla út úr kreppunni á næsta ári.“

Kristján Þór Júlíusson í ræðustól Alþingis. Úr myndasafni.
Kristján Þór Júlíusson í ræðustól Alþingis. Úr myndasafni. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina