Hvar eru vígðu konurnar?

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði
Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði

Þegar kosið var til Kirkjuþings í vor héldu héldu leikmenn óbreyttu kynjahlutfalli en vígðum konum fjölgaði um eina frá síðasta þingi (eru nú þrjár en karlarnir níu, eða 25%).Hlutfall kvenna er þó ennþá lægra í Kirkjuráði sem kosið var fyrir tæpum mánuði síðan, eða 20%. Þetta kemur fram í pistli sem Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði ritar á vefinn tru.is.

„Þar er kynjahlutfallið óbreytt frá síðasta kjörtímabili, þar sem situr aðeins ein kona en fjórir karlar og engin kona úr hópi prestsvígðra fulltrúa Kirkjuþings.

Að engin prestsvígð kona sitji í Kirkjuráði, sem kosið er af fulltrúum á Kirkjuþingi, veldur mér áhyggjum. Það gengur vissulega hægt að jafna kynjahlutfallið í hópi prestsvígðra á Kirkjuþingi. En að Kirkjuþing, annað kjörtímabilið í röð, treysti sér ekki til að framfylgja jafnréttisáætlun sem það samþykkti sjálft mótatkvæðislaust vekur spurningar um vinnubrögð Kirkjuþings en jafnframt trúverðugleika þess.

Lítur Kirkjuþing kannski svo á að það sé á engan hátt bundið af íslenskum lögum (a.m.k. ef um jafnréttislög er að ræða) eða samþykktum sem það sjálft hefur staðið að? Mér finnst erfitt að skilja þessa ítrekaðu útilokun prestsvígðra kvenna úr Kirkjuráði ekki sem vantraustsyfirlýsingu gegn þeim. Getur verið að það sé málið?

Það er algengt að gengið sé út frá því að jafnrétti kynjanna aukist með tímanum. Þessvegna hafa konur tíðum verið hvattar til að sýna þolinmæði í baráttu sinni fyrir auknum réttindum þar sem þetta sé allt á réttri leið. Fullu jafnrétti verði örugglega náð að lokum, bara ef við gefum því nauðsynlegan tíma," ritar Arnfríður í pistli sínum.

Hér er pistillinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert