Fréttaskýring: Skýrir kostir í stöðunni

Samninganefndin kynnir Icesave-samningana.
Samninganefndin kynnir Icesave-samningana. mbl.is/Kristinn

Afar ólíklegt er að sest verði aftur að samningaborði, að mati Lárusar Blöndal, fulltrúa stjórnarandstöðunnar í Icesave-samninganefndinni síðustu. Hann telur því að kostirnir séu skýrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni, að skrifa undir samningana eða fara dómstólaleiðina.

Lárus segir það tilfinningu samninganefndarinnar – sem aftur hafi endurspeglast í máli þingmanna við meðferð málsins í þinginu – að ekki verði náð betri samningum en þeim sem liggja fyrir. „En mér finnst þetta einnig snúa frekar að því hvort menn vilji yfirleitt semja. Það er það sem stendur upp úr núna.“

Hann segir einnig mikilvægt að samningarnir verði kynntir þjóðinni svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Í því samhengi bendir Lárus á, að hann heyri í sífellu sjónarmið sem eigi ekkert við um samningana „og afar auðvelt væri að upplýsa fólk um sannleikann, þannig að það sé ekki að mynda sér skoðanir út frá einhverju sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum“.

Meðal þess sem hann segist hafa heyrt er að ekki þurfi að greiða neitt meira þó svo farin verði dómstólaleiðin og málið tapist. „Það er undarlegt hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu. Við erum að semja um vexti sem enginn annar er að fá í heiminum og ef menn tapa dómsmáli þá er aðeins um að ræða gjaldfallna kröfu með hæstu vöxtum, sem yrðu án efa hærri en upphaflegir umsamdir vextir.“

Lárus segist einnig vera mjög bjartsýnn á að úr þrotabúi Landsbankans fáist að fullu upp í forgangskröfur. Því sé þetta aðeins spurning um vexti. Fari hins vegar í hart og málið fyrir dómstóla munu Bretar og Hollendingar einnig gera kröfu um að íslenska ríkið beri ábyrgð á innistæðunum að fullu. „Og ofan á það koma svo vextir. Þannig að í versta falli erum við að tala um mörg hundruð milljarða.“ Samkvæmt samningunum þarf að greiða um 47 milljarða króna.mbl.is