Hvatning fyrir stjórnvöld

Advice-hópurinn, sem mælti gegn samþykkt Icesave-laganna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í gær, skorar á stjórnvöld að halda uppi vörnum í deilunni við Breta og Hollendinga og segir að niðurstaða kosninganna sé hvatning til þess.

Fulltrúar hópsins neita því að þjóðin sé klofin eftir kosningarnar og segja úrslitin afgerandi.

Advice boðaði til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu klukkan 10.00 í morgun. Þar kom fram að hópurinn hyggst blanda sér áfram í umræðuna um Icesave. Aðspurðir hvort hópurinn ætlaði sér frekari landvinninga í pólitík svöruðu fulltrúar hópsins neitandi.

Hópurinn þakkaði forseta Íslands, Samstöðu-hópnum og þeim sem aðstoðuðu við kosningabaráttuna á fundinum. Hópurinn fagnaði því að þjóðin hefði fengið taka upplýsta ákvörðun. Advice birti fjölda auglýsinga í aðdraganda kosninganna. Fulltrúarnir voru spurðir hver stæði kostnað af þeim auglýsingum og svöruðu á þá leið að einstaklingar hefðu fjármagnað baráttuna alfarið með frjálsum framlögum. Alls hafi um sjö til átta milljónir safnast.

mbl.is

Bloggað um fréttina