Stöðugleika ekki ógnað

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnir viðbrögð stjórnarinnar við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins …
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnir viðbrögð stjórnarinnar við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins um Icesave á fundi með fréttamönnum í Þjóðmenningarhúsinu í gær. mbl.is/Árni Sæberg.

Úrslitin í kosningunum um Icesave-lögin voru afgerandi og vildi meirihluti kjósenda í öllum kjördæmum fella lögin úr gildi. Hlutfall þeirra sem sögðu „nei“ var þó mun hærra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS á Íslandi, segir í samtali við Morgunblaðið að úrslitin muni ekki ógna efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. „Icesave hefur aldrei verið hluti af efnahagsáætlun AGS og lausn deilunnar við Breta og Hollendinga hefur aldrei verið skilyrði hjá okkur.“

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segist ekki telja að niðurstaðan í málinu eigi að hafa áhrif á aðildarumsóknina í ESB, enda hafi talsmenn ESB og Breta tekið fram að um tvö aðskilin mál væri að ræða. Sylvester Eijffinger, hagfræðiprófessor og ráðgjafi hollenska forsætisráðherrans, segist aftur á móti telja að á þessari stundu sé enginn möguleiki á því að Ísland fái aðild að sambandinu.

Atli Gíslason, sem nýlega sagði sig úr þingflokki VG, segir framtíð ríkisstjórnarinnar hanga á aðildarumsókninni í ESB. „Ef ESB-umsóknin strandar þá hrynur stjórnin.“

Mikill meirihluti sjálfstæðismanna virðist ekki hafa fylgt formanni sínum, Bjarna Benediktssyni, í kosningunum, en Bjarni greiddi atkvæði með lögunum um Icesave-samninginn á sínum tíma. „Ef það er hægt að draga einhverja ályktun af þessari niðurstöðu er það þá helst að menn eiga ekki að fara gegn ályktunum landsfundar,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður flokksins. Stuðningsmenn Bjarna telja þó stöðu hans trausta innan flokksins.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »