Fagnar ákvörðun innanríkisráðherra

mbl.is/Ernir

Lögreglufélag Vesturlands fagnar því að innanríkisráðherra hafi hætt við sameiningu lögregluembætta á Vesturlandi og Vestfjörðum, en sameina þess í stað eingöngu embættin á Vesturlandi.

Þá hvetur félagið ráðherra til að auka fjárveitingar til lögreglu þar sem búast megi við metfjölda ferðamanna til Íslands í sumar.

Þetta segir m.a. í ályktun frá aðalfundi félagsins sem var haldinn í Stykkishólmi í gær.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að fundarmenn hafi lýst áhyggjum sínum yfir því að í nýjum drögum innanríkisráðherra í frumvarpi til laga um breytingar á lögreglulögum sé hvergi að finna þann eftirlaunapakka sem hann hafi lofað lögreglumönnum. 

Segir að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi á fundi í Borgarnesi þann 15. ferbrúar sl., með lögreglustjórum og lögreglumönnum á Vesturlandi, sagt að frumvarp um fækkun og stækkun lögregluembætta yrði ekki lagt fram nema með þeim eftirlaunapakka sem lögreglumönnum hafði verið lofað.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert