Gekk 16 kílómetra á kjörstað til þess að mótmæla

Bríet segist vön göngutúrum því gott sé að halda sér …
Bríet segist vön göngutúrum því gott sé að halda sér við. mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

„Nei, engar harðsperrur í dag, mér líður alveg ljómandi vel,“ segir hin 83 ára Bríet Böðvarsdóttir sem í gær tók á það ráð að ganga 16 kílómetra leið á kjörfund í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

Segir hún veðrið hafa verið yndislegt og gönguna alls ekki erfiða enda vön útiveru og hreyfingu. 

„Þetta var gleðiganga og alveg hreint yndislegt að labba hér sandana, hlíðarnar og Barðaströndina. Ég fer oft í göngutúra, það er svo ljómandi gott að halda sér við. Ég er nú ekkert unglamb lengur.“

Vill vernda friðlandið

Bríet fór í gönguna í mótmælaskyni vegna virkjanahugmynda í friðlandinu í Vatnsfirði en sjálf hefur hún barist gegn þeim hugmyndum í bráðum tvö ár. 

„Mér finnst bara alveg út í hött að vera að hreyfa við þessu. Þetta er friðland og mér finnst að það eigi að vera það áfram,“ segir hún og bætir því við að ákvörðunina um gönguna hafi hún tekið í gærmorgun.

„Ég var nú ekkert ákveðin í þessu þegar ég fór á fætur. Ég var að snúast eitthvað á eldhúsgólfinu og þá kom þessi hugmynd að það væri hægt að hafa þetta göngu til heilla þessa.“

„Mér finnst bara alveg út í hött að vera að …
„Mér finnst bara alveg út í hött að vera að hreyfa við þessu. Þetta er friðland og mér finnst að það eigi að vera það áfram.“ mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

Innt eftir því hvort hún haldi að gangan hennar í gær verði til þess að vekja fleiri til umhugsunar um að vernda svæðið segist Bríet vona að hún verði til góðs. 

„Hún hefur að minnsta kosti vakið nóga athygli finnst mér. Ég er nú eiginlega hálf undrandi á því þar sem ég er búin að fara í marga göngutúra en ég vona að hún veki athygli á góðum málstað og verði til góðs.“

Fékk blíðar móttökur á kjörstað

Þá segir hún móttökurnar á kjörstað hafa verið dásamlegar.

„Kjörstjórnin kom út og klappaði fyrir mér og þeir sem voru þarna staddir. Ég var nú bara undrandi.“

Aðspurð að lokum hvort hún hafi verið ein af þeim sem sendi inn tillögur að nýju nafni á sveitarfélaginu segir hún svo ekki vera.

„Nei, það gerði ég ekki. Mér finnsta bara að þar sem þetta er vestasta byggð hér á landinu að þetta geti heitið Vesturbyggð áfram. Mér finnst það alveg tilvalið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert