12% hækkun verði atvinnuleiðin farin

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins í húsi ríkissáttasemjara.
Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins í húsi ríkissáttasemjara. mbl.is/Golli

Verði atvinnuleiðin farin og kjarasamningar gerðir til þriggja ára, eins og Samtök atvinnulífsins berjast fyrir, myndi launakostnaður atvinnulífsins í heild hækka um 12%, að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA.

„Við erum á fullri ferð að reyna að bjarga atvinnuleiðinni og teljum það okkar skyldu að reyna algjörlega til þrautar hvort ekki er hægt að fara þá leið. Það er það besta og skynsamlegasta í stöðunni að snúa bökum saman og reyna að komast út úr kreppunni,“ segir Vilhjálmur.

Samtök atvinnulífsins leggja áfram mikla áherslu á að gengið verði frá samkomulagi um kjarasamninga til þriggja ára. Forystumenn SA hafa átt óformleg samtöl seinustu daga við ráðherra og fulltrúa ríkisstjórnarinnar.

Sjávarútvegsmálið stendur enn í veginum. „Staðan er einfaldlega sú að það er óhugsandi að Ísland komist upp úr kreppunni ef helsta útflutningsgreinin er í fullkominni óvissu um sína rekstrarstöðu og framtíð,“ segir Vilhjálmur. „Við höfum verið að velta upp ýmsum möguleikum svo hægt sé að ná sátt um sjávarútveginn,“ segir hann. Vilhjálmur segist telja að ákveðinn vilji sé til staðar hjá fjármálaráðherra að leysa þetta mál, „en það þarf meiri vilja og frá fleirum,“ segir hann.

„Okkur finnst mjög hrapalegt ef við þurfum að hrökkva frá þessu. Þær launahækkanir sem við erum að taka á okkur ef atvinnuleiðin verður farin og byggt verður á þriggja ára samningi, eru mjög dýrar fyrir atvinnulífið, sérstaklega fyrir þann hluta þess, sem er með fólk með lægri tekjur í vinnu. Það er útilokað að hægt verði að standa undir þessum launahækkunum nema við séum á leið út úr kreppunni. Þess vegna erum við að leggja þetta ofurkapp á að þessi leið verði farin. Allt annað er neyðarbrauð,“ segir hann.

Launahækkanir sem SA er tilbúið að standa að ef samið verður til þriggja ára fela í sér að meðaltali hátt í 12% launakostnaðarhækkun fyrir atvinnulífið í heild og mun meiri hækkun fyrir fyrirtæki sem eru með margt lágtekjufólki í vinnu, að sögn Vilhjálms. Auk þess myndi lágmarkstekjutryggingin hækka um rúm 20%.

4�½% atvinnuleysi 2013 

Vilhjálmur bendir á að þetta séu miklar hækkanir sem verði væntanlega umtalsvert umfram verðbólgu á þessu þriggja ára tímabili en aðal kaupmáttaráhrifin verði vegna aukinnar vinnu, minna atvinnuleysi, hærri starfshlutföll og meiri yfirvinnu, sem fylgi atvinnuleiðinni. Auk þess myndu launalækkanir sem fyrirtæki hafa þurft að grípa til ganga til baka þegar fyrirtækjunum færi að ganga betur.

„Það er því eftir miklu að slægjast að fara atvinnuleiðina,“ segir Vilhjálmur. Samtök atvinnulífsins hafa spáð því að atvinnuleysið yrði komið niður í 4,5% á árinu 2013 ef atvinnuleiðin verður farin.

mbl.is