Guðmundur úr framsókn

Guðmundur Steingrímsson er hættur í Framsóknarflokknum
Guðmundur Steingrímsson er hættur í Framsóknarflokknum mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir sig úr Framsóknarflokknum og þingflokki Framsóknarflokksins í dag. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann teldi þörf á nýju stjórnmálaafli hér á landi. „Það er ekki rétt að ég sé á leiðinni í Samfylkinguna á nýjan leik. Ég held að ég eigi samleið með frjálslyndu fólki úr Framsóknarflokknum, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni og raunar einnig að hluta til úr Vinstri grænum,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur segir að það sé dágóður hópur, sem undirbúi nú stofnun nýs stjórnmálaafls. Það muni bara koma á daginn hversu stór sá hópur verði.

Talsverðrar ólgu hefur gætt innan Framsóknarflokksins undanfarna daga, þar sem ákveðnir framsóknarmenn sem eru í hópi ESB-sinna hafa ekki verið ánægðir með málflutning Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, sem m.a. ítrekaði þá skoðun sína í grein hér í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, að leggja bæri aðildarumsókn að ESB til hliðar. Sú skoðun hans er í samræmi við ályktun flokksins á síðasta landsfundi hans.

Hallur Magnússon, sem sagði sig úr Framsóknarflokknum á miðstjórnarfundi flokksins á Húsavík, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann skildi það vel að Guðmundur hefði fengið nóg. „Formaðurinn hefur ekki talað við Guðmund í tvö ár, nema til þess eins að skamma hann,“ sagði Hallur.

Hann sagði að þótt Guðmundur væri á leiðinni úr Framsóknarflokknum, þá væri ekki þar með sagt, að þegar í stað yrði stofnaður nýr flokkur, en hinu væri ekki að leyna, að „þeir frjálslyndari innan flokksins og þeir sem eru hallir undir aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið, hafa verið að ræða saman og munu halda því áfram.“ Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun nú vera um það rætt að um 30 manna hópur undirbúi nú stofnun þessa stjórnmálaafls. Fullyrt er að Össur Skarphéðinsson hafi komið að málum á bak við tjöldin, fyrir milligöngu aðstoðarmanns síns, Kristjáns Guy Burgess, og Róberts Marshalls, þingmanns Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, þar sem Össur vilji gera hvað hann geti til þess að tryggja sér ákveðin atkvæði á Alþingi, komi til þess að til tíðinda dragi með þingmenn eins og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þráin Bertelsson, sem hefur hótað að styðja ekki fjárlög ríkisstjórnarinnar verði ekki gengið að kröfum hans hvað varðar framlög til Kvikmyndaskóla Íslands. Jafnfram er fullyrt að fyrrverandi stuðningsmannakjarni Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, sé með í ráðum.

Engir aðrir þingmenn Framsóknarflokksins munu fylgja Guðmundi Steingrímssyni úr flokknum, eftir því sem næst verður komist.

Fyrir helgi sögðu þeir Gestur Guðjónsson, Andrés Pétursson og G. Valdimar Valdemarsson sig úr Framsóknarflokknum og tilgreindu sem ástæður úrsagna sinna málflutning formannsins í Evrópusambandsmálum.

Þá mun það hafa komið fram á Fésbókarsíðu Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, sem einnig hefur verið virkur í Framsóknarflokknum, að hann hafi boðað úrsögn úr flokknum.

Fleiri gengið í flokkinn en farið

„Það er auðvitað leitt að missa mann úr þingflokknum en ég ræddi við Guðmund og hann fór vel yfir ástæður þess að hann tók þessa ákvörðun. Það er greinilegt að hann var búinn að velta þessu mikið fyrir sér. Þetta kom ekki að öllu leyti á óvart því að þegar Ásmundur Einar Daðason gekk til liðs við Framsóknarflokkinn sagðist Guðmundur þurfa að meta stöðu sína og þetta er því miður niðurstaðan. Eins og hann bendir sjálfur á er eðlilegt í stjórnmálum að menn finni sér þann vettvang þar sem þeir telja sig best geta komið sínum málum áleiðis. Ég óska Guðmundi velfarnaðar í framhaldinu og geri ráð fyrir að hann beiti sér áfram með okkur í þeim málum sem falla að skoðunum hans,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.

Sigmundur segir hugsanlegt að einhverjir fleiri segi sig úr flokknum en að skrifstofa flokksins hafi upplýst sig um það að fleiri hafi skráð sig í flokkinn en úr honum að undanförnu.

Að mati Sigmundar breytir úrsögn Guðmundar Steingrímssonar úr Framsóknarflokknum litlu um stöðu ríkisstjórnarinnar enda hafi hann ekki stutt tillögu um vantraust á ríkisstjórnina á sínum tíma og hafi verið ólíklegur til að taka þátt í að fella stjórnina ef aftur kæmi til slíkrar atkvæðagreiðslu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »