Ræddi við rektor um skrif Þórólfs

Sindri Sigurgeirsson.
Sindri Sigurgeirsson.

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) tilkynnti rektor Háskóla Íslands í vikunni, að samtökin væru hætt við að kaupa vinnu af Hagfræðistofnun HÍ varðandi stefnumótun í sauðfjárrækt. Ástæðan er óánægja bænda með skrif deildarforseta hagfræðideildar HÍ um framleiðslu og verðlagningu kindakjöts.

Fram kemur á vef Bændablaðsins, að Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, hafi á mánudag átt fund með Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, um þessi mál en bændum hafi þótt verulega að sér vegið í skrifum Þórólfs Matthíassonar, prófessors og deildarforseta hagfræðideildar, í fjölmiðlum.

Haft er eftir Sindra á vef Bændablasins, að rektor hafi ekki tekið afstöðu til gagnrýninnar á Þórólf í ljósi frelsis starfsmanna til að tjá skoðanir sínar.  En Sindri segist hafa sagt Kristínu, að innan LS þætti mönnum ekki lengur stætt á að kaupa vinnu af þessari stofnun á sama tíma og deildarforsetinn stundaði beinar árásir á stétt sauðfjárbænda.

Fram kemur að á fundi með forsvarsmönnum sauðfjárbænda og Hagfræðistofnunar í júlí hafi verið ræddar  hugmyndir um verkefni í samvinnu við Hagfræðistofnun til að meta hagræðingarmöguleika í sláturiðnaði. Var málið sett í það ferli að Hagfræðistofnun gerði drög að verkefnistillögu ásamt verðhugmynd.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri LS, sendi Hagfræðistofnun hins vegar tölvupóst í gærmorgun þar sem óskað er eftir að öll vinna við þetta verkefni af hálfu Hagfræðistofnunar verði stöðvuð. LS treysti sér ekki lengur til að vinna verkefnið í samvinnu við Hagfræðistofnun vegna málflutnings deildarforseta hagfræðideildar HÍ um sauðfjárræktina í fjölmiðlum.

Bent sé á í tölvupóstinum, að þótt deildarforsetinn sé ekki beinn starfs- eða stjórnarmaður Hagfræðistofnunar séu tengsl deildarinnar og stofnunarinnar óhjákvæmilega náin. Deildarforseti hagfræðideildar hljóti jafnframt að bera faglega ábyrgð á því sem hann setji fram og það sem hann segi hafi áhrif á orðspor beggja meðal bænda. Því hafi LS tekið ákvörðun um að hætta við fyrirhugaða samvinnu við Hagfræðistofnun.

Vefur Bændablaðsins

mbl.is

Bloggað um fréttina