Gat ekki sagt nei

Kofi Annan og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum í dag.
Kofi Annan og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, kom til Íslands síðdegis í dag og situr nú blaðamannafund á Bessastöðum ásamt Ólafi Ragnari Grímsyni, forseta Íslands.

„Ég er ánægður með að vera hér aftur. Ég man vel eftir fyrstu heimsókn minni til Íslands. Þegar ég var beðinn að koma og fagna 100 ára afmæli Háskóla Íslands gat ég ekki sagt nei. Háskólar leika stórt hlutverk í framtíðinni,“ sagði Annan í upphafi blaðamannafundarins.

Kofi Annan kemur til Íslands í boði forseta Íslands og Háskóla Íslands og mun í kvöld sitja kvöldverð í boði forseta ásamt forráðamönnum Háskólans og ráðherrum.

Kofi Annan flytur á morgun, föstudag, upphafsræðuna á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í tilefni af hundrað ára afmæli skólans. Málþingið ber heitið „Áskoranir 21. aldarinnar“ og hefst kl. 13:00 í Háskólabíói.

Í fyrramálið heimsækir Kofi Annan, í fylgd forseta, Hellisheiðarvirkjun þar sem íslenskir vísindamenn og sérfræðingar munu kynna honum kosti jarðhitanýtingar fyrir þróunarlönd, einkum Afríku.

mbl.is