Komið verði til móts við þá verst stöddu

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin sé að skoða leiðir til að koma til móts við þá lántaka fasteignalána sem verst eru staddir. Hún segir einnig mikilvægt að hraða þeim málum sem varða ágreining um lögmæti lána gegnum dómskerfið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu hvort hún ætlaði að beita sér fyrir því að hraða meðferð þeirra mála sem nú væru í dómskerfinu og vörðuðu lögmæti lána. Hún sagði sjálfsagt að skoða það og gera lagabreytingar ef þörf er á. Það væri verið að skoða í þingnefndum þær óleystu spurningar sem upp komu í kjölfar gengislánadóms hæstaréttar. Hún sagði að rætt hefði verið um að lögmenn kröfuhafa og lögmenn þeirra sem gæti hagsmuna lántaka kæmu saman til fundar til að ræða leiðir til að flýta þessum málum.

Bjarni spurði líka hvort stjórnvöld ætluðu að beita sér fyrir því að innheimta lána yrði samræmd og að sýslumenn tækju með samræmdum hætti á þessum málum. Jóhanna sagði mikilvægt að ekki væri staðið að hörðum innheimtuaðgerðum meðan þessi mál væru óljós.

„Menn eru í ráðherrahópi að skoða hvaða leiðir er hægt að fara án þess að það komi harkalega niður á skattgreiðendum og lífeyrisþegum. Það erum ýmsar leiðir sem eru þar til skoðunar. Verðtryggingin er til skoðunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Væntanlega kemur niðurstaða þar fljótlega. Bæði efnahags- og viðskiptanefnd og ríkisstjórnin eru að skoða leiðir til að greiða úr þessum dómi.

Síðan erum við að skoða hvað er hægt að gera til að fara í almennar aðgerðir, sem bæta betur stöðu þeirra sem verst eru settir. Þetta allt er til skoðunar núna, m.a. lánsveðin sem hafa tekið lengri tíma en við höfðum vonast eftir.

Ég tel að við eigum að skoða það af fullri alvöru að það komi allir að þessu borði, bæði stjórn og stjórnarandstaða til að fara yfir þær hugmyndir sem hafa komið fram, til að sjá hvað er raunhæft að gera. Í mínum huga er lykilatriði að við setjum ekki ríkissjóð á hvolf í þessu efni og gerum þetta með þeim hætti að þetta lendi ekki á skattgreiðendum og lífeyrisþegum,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna sagði að verið væri að reikna út áhrif þeirra hugmynda sem settar hafa verið fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert