Högl í fjórðungi dauðra fálka

Fálkar eru friðaðir.
Fálkar eru friðaðir. Ómar Óskarsson

Nýverið fannst dauður fálki á Mýrum í Hornafirði en sjö högl fundust í hræinu. „Að skjóta friðaða fugla er ekki veiði heldur dráp sem kemur óorði á alla veiðimenn,“ segir í ályktun frá aðalfundi Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST).

Þar segir að fjórðungur þeirra fálka sem finnist dauðir á Íslandi séu með högl í sér. Væntanlega sé aðeins um að ræða brot af þeim fjölda fálka sem skotnir eru þrátt fyrir algera friðun. Fleiri friðaðar fuglategundir hafi verið skotnar, t.d. bjartmáfar, skúmar og ýmsar andategundir. „Reglan hlýtur ávallt að vera sú að skjóta ekkert sem ekki er örugglega greint til tegundar.“

Leggur NAUST til að komið verði upp kerfi eftirlitsmanna með fuglaveiði sem hafi heimild til að skoða afla og gera upptæk skotvopn finnist friðaðar tegundir í afla. „Þá leggur NAUST áherslu á að þeir sem stoppa upp fugla stoppi ekki upp friðaða fugla heldur tilkynni til lögreglu þau hræ sem þeim berast [...] Heiður veiðimanna er að veði ef ekki verður komið í veg fyrir veiðar á friðuðum fuglum.“

NAUST ályktaði einnig um eggjatínslu en undanfarin ár hefur orðið vart við aukna ásókn í fuglaegg á Austurlandi. „Svo hart er gengið fram að jafnvel er hreinsað hvert einasta egg úr hreiðrum en ekki virt sú forna hefð að skilja ávallt eftir egg í hreiðri. Hófleg nýting hefur ekki áhrif á fuglastofna en þar sem öll egg eru hreinsuð úr hreiðrum hefur það umtalsverð áhrif og getur jafnvel fælt fugla frá því að verpa aftur á viðkomandi slóðum.“ NAUST skori því á þá sem til þekkja að uppfræða eggjatínslufólk um alvarleika þess að hreinsa hreiður alfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert