Færri hjólreiðamenn með hjálm

Samkvæmt talningu tryggingafélagsins VÍS á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í gær notuðu 74% hjólreiðamanna hjálm, samanborið við 83% í fyrra. Þetta er 11% fækkun milli ára. 1.143 hjólreiðamenn áttu leið fram hjá teljurum VÍS og reyndust 848 vera með hjálm á höfði eða 74%. Á sama tíma í fyrra voru 867 af 1045 hjólreiðamönnum með hjálm. Þá var átakið Hjólað í vinnuna nýhafið ólíkt því sem nú er. Áberandi færri unglingar nota hjálm en fullorðnir og börn.

Rannsóknir sýna að reiðhjólahjálmur minnkar líkur á höfuðáverka um 69% og minnkar líkur á alvarlegum höfuðáverkum um 79%. Því er mjög brýnt að hjálmurinn sé í lagi og notaður rétt, þar sem rangt stilltur hjálmur eða of gamall veitir falska vörn. Líftími hjálma sem ekki verða fyrir hnjaski er alla jafna 5 ár frá framleiðsludegi og þrjú ár frá söludegi. Til að hjálmur sitji  rétt á höfði þarf hann að vera af réttri stærð og sitja þannig að eyrun séu í miðju V forminu og einn til tveir fingur komist undir hökubandið.

Jafnframt er mikilvægt að hjólreiðamenn fari eftir umferðarreglum og gæti þess að vera sýnilegir í umferðinni. Mikilvægt er að hjólreiðamenn leggist á eitt að gæta öryggis síns og hafi í huga að hjálmur getur skipt höfuðmáli, segir í fréttatilkynningu frá VÍS.

mbl.is

Bloggað um fréttina