Ásdís Jenna: „Ég gefst aldrei upp“

Ásdís Jenna Ástráðsdóttir tekst nú á við enn eitt verkefnið, en fyrir níu mánuðum eignaðist hún sprellfjörugan snáða, hann Adam Ástráð, með eiginmanni sínum Kevin Buggle. Ásdís er fjölfötluð og þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs.  

Mbl.is átti stefnumót við Ásdísi og fjölskyldu hennar á kaffihúsinu þar sem hún hitti hann Kevin, manninn sinn, í fyrsta skiptið.

Ásdís Jenna er bundin í hjólastól. Hún er heyrnarskert og með truflaða vöðvaspennu sem leiðir til þess að hún getur hvorki stjórnað höndum né fótum. 

Dreymdi um að verða foreldrar

Þau Ásdísi og Kevin dreymdi um að verða foreldrar, en áttu ekki von á því að draumurinn myndi rætast. Læknar höfðu sagt að Ásdís gæti ekki gengið með og fætt barn vegna fötlunar hennar og höfðu meðal annars áform um að fá staðgöngumóður, en annað kom á daginn. 

Fæðingin og meðgangan fékk nokkuð á Ásdísi, sem glímdi við fæðingarþunglyndi um tíma, en hefur nú náð sér með aðstoð lyfja og góðum stuðningi ástvina.

Sammála um uppeldið

Foreldrarnir segja soninn hafa erft ýmsa eiginleika þeirra beggja, en hann hafi skaplyndi Ásdísar. Þau eru nokkuð sammála um uppeldi sonarins og segjast hafa komist að samkomulagi um að þar hafi Ásdís mest að segja. Eina ágreiningsefnið hingað til er að Ásdís hefur sterkar skoðanir á starfsvali Adams í framtíðinni, en hún vill gjarnan að hann verði læknir.

Eru vonandi að sýna fólki fram á að fatlaðir geti stofnað fjölskyldu

Hjónin segjast hafa heyrt fólk tala um að þau ættu ekki að eignast barn þar sem Ásdís gæti ekki séð um það sjálf. Hún segir að þau séu vonandi að sýna fóllki fram á að fatlaðir geti vel stofnað og séð um fjölskyldu sína svo framarlega sem þeir fái aðstoð til þess.

Fötlun Ásdísar má rekja til veikinda á barnsaldri og hún segir að læknamistök hafi verið gerð. Hún hefur verið reið og sár vegna þess, en ekki lengur. „Ég hef verið reið í mörg ár,“ segir hún. „En ég hef fyrirgefið læknunum sem gerðu mistök þegar ég var ungbarn. Ég hef sætt mig við fötlun mína.“

Björt framtíð

Framtíðin er björt hjá litlu fjölskyldunni. Þessa dagana eru þau að pakka eigum sínum saman og flytja í stærri íbúð þar sem rýmra verður um þau og Adam litla. Þau hafa aðstoðarfólk á heimilinu og að auki er móðir Kevins búsett hjá þeim og er þeim mikil stoð og stytta.

Ásdís Jenna er móðir ungs barns, hún er háskólamenntuð og hefur lokið BA-gráðu í táknmálsfræði, hún rekur fyrirtæki og er gift manni sem hún segir besta mann í heimi. Hún segist ekki þekkja uppgjöf og að það hvarfli aldrei að sér að hún geti ekki gert það sem hugur hennar stendur til.

„Ég gefst aldrei upp. Ég er þrjósk,“ segir Ásdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert