Pólitík hefur skemmt skólastarfið

Kolfinna S. Magnúsdóttir.
Kolfinna S. Magnúsdóttir.

„Það er þarna sem hnífurinn stendur í kúnni. Pólitíkin á ekki að koma nærri þeim ákvörðunum sem eru teknar um skólamál hér í Garði, en það hefur verið þannig að mínu mati og var ein af ástæðunum fyrir því að ég sagði mig frá meirihlutasamstarfinu,“ segir Kolfinna S. Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Garði.

Kolfinna sleit meirihlutasamstarfi D-lista og gekk til liðs við N-lista í síðustu viku. Í framhaldi af því var myndaður nýr meirihluti N- og L-lista og bæjarstjóranum, Ásmundi Friðrikssyni, var sagt upp störfum á aukabæjarstjórnarfundi í gær.

Starfsemi grunnskólans í Garði, Gerðaskóla, er sögð ástæða þess að upp úr samstarfinu slitnaði. Mennta- og menningarmálaráðuneytið lét vinna skýrslu um skólann og þar kemur meðal annars fram að helstu veikleikar skólans séu að ekki hefur verið unnið nægilega markvisst út frá stefnu og skólanámskrá, útkoma skólans á samræmdum prófum og PISA, sérstaklega í lestri og miklar pólitískar deilur um skólastarfið. Í skýrslunni segir að ráða þurfi nýtt stjórnendateymi að skólanum, sem ekki tengist pólitískum fylkingum í bænum.

Pólitík hefur skemmt skólastarfið

Í viðtali við mbl.is í gær segist Ásmundur óttast að ekki verði unnið samkvæmt þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni og segir í viðtalinu að fólkið sem taki yfir séu kennarar eða makar kennara og að nú sé bæjarlífinu í Garði stjórnað úr skólanum.

Þetta segir Kolfinna alrangt. „Það þarf að hafa í huga að þetta er mjög lítið samfélag og grunnskólinn er stærsti vinnustaðurinn. Kennarar tengjast eðlilega bæði meiri- og minnihluta núverandi og fyrrverandi bæjarstjórnar. En Ásmundur virðist hafa þungar áhyggjur af því að skýrslunni verði stungið undir stól og hefur áhyggjur að því að það verði ekki staðið faglega að úrbótastarfinu. Þessar pólitísku deilur hér í bænum hafa skemmt margt, líka skólastarfið og það var ástæða þess að ég fór úr meirihlutanum. Ég óttaðist að ekki yrði unnið faglega að umbótunum. Það þarf að leggja þessar deilur til hliðar, það er grundvöllur fyrir því að uppbyggingarstarfið geti hafist.“

Hagur allra að ástandið batni

Kolfinna segir að ný bæjarstjórn í Garði muni gæta þess vel að bæjarstjórnin komi ekki að þessum málum. Ráða eigi nýjan skólastjóra í Gerðaskóla, ráðningarferlið verður í höndum skólaskrifstofu Reykjanesbæjar og Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Kolfinna segir rangt að tala um að nýja bæjarstjórnin verði báðum megin borðs í umbótastarfinu sem vinna á í skólanum. „Við hljótum öll að vera sömu megin borðsins, það er hagur okkar allra að það  takist að bæta þetta ástand.“

Ýmsar tölur nefndar

Fullyrt hefur verið að starfslok Ásmundar kosti sveitarfélagið um 50 milljónir króna, en í starfslokasamningi hans er kveðið á um að hann fái laun í 32 mánuði, verði honum sagt upp störfum. Hefði ekki verið hægt að standa að starfslokum hans á annan hátt, til dæmis með því að semja um þau með öðrum hætti?

„Þessi starfslokasamningur er í fyrsta lagi ekki á ábyrgð núverandi meirihluta, hann er algerlega á ábyrgð fyrrverandi bæjarstjórnar. Það hafa ýmsar tölur verið nefndar í þessu sambandi, allt frá 30 og upp í 130 milljónir og við þurfum að fara yfir samninginn.“

Sérstakt ástand í bænum

Skipað hefur verið í ráð og nefndir í bænum og fljótlega verður auglýst eftir nýjum bæjarstjóra. Málið hefur tekið á og verið mörgum erfitt. „Það hefur verið mjög sérstakt ástand hérna í bænum,“ segir Kolfinna, sem hefur fengið ýmsar hótanir vegna aðkomu sinnar að málinu. „Menn eru undir mikilli smásjá og allt litast þetta af miklum tilfinningum. Það sem skiptir máli núna er að vinna saman í sátt.“

Ásmundur Friðriksson fyrrverandi bæjarstjóri í Garði.
Ásmundur Friðriksson fyrrverandi bæjarstjóri í Garði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert