Verða kynnt fyrir drottningunni

Gullsmiðurinn Kristján Eyjólfsson og eiginkona hans, Ivonne, verða kynnt fyrir Elísabetu Englandsdrottningu á morgun er drottningin fær afhenta demantsnælu sem Kristján hannaði fyrir hana í tilefni af sextíu ára krýningarafmæli hennar, sem kallast demantsafmæli. Íslenskt víravirki er í nælunni en að sögn Kristjáns vildi hann að nælan myndi minna á Ísland.

Að sögn Kristjáns fær drottningin næluna á blómasýningunni í Chelsea á morgun auk þess sem allir gestir í kvöldverðarboði vegna sýningarinnar fá einnig nælu að gjöf sem Kristján hannaði. Um er að ræða tæplega þrjú hundruð nælur.

Kristján segir að þetta sé mjög spennandi og mikið tækifæri að fá að hanna nælurnar og mikil vinna liggi að baki gerð þeirra. „Það verður líka mjög spennandi að fá að hitta drottninguna á sýningunni á morgun enda mikill heiður fyrir okkur Ivonne.

Í fyrrasumar var haft samband við Kristján vegna hönnunarinnar og hann beðinn um að hanna nælu tengda þema blómasýningarinnar í ár sem er magnolía. „Þá hófst hönnunarferlið hjá mér en ég hannaði nokkrar útgáfur af nælunni. Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni og tók marga mánuði að smíða nælurnar en engin þeirra er eins. Hvert stykki er handgrafið með perlu sem einnig er handgrafin,“ segir Kristján.

Smíðinni á nælum gestanna lauk fyrir fjórum vikum en þá var Kristján beðinn um að hanna sérstaka nælu fyrir drottninguna. Fékk hann við það tækifæri bréf frá Buckingham-höll þar sem Elísabet Englandsdrottning þakkar honum fyrir.

Kristján hefur starfað við gullsmíði í sautján ár, fyrst hér heima en flutti síðan til Lundúna árið 2004 þar sem hann fór í frekara nám. Lauk hann þar BA-prófi í hönnun. Í kjölfarið starfaði hann sem yfirgullsmiður hjá öðru fyrirtæki en ákvað síðan að stofna sitt eigið fyrirtæki Kristjan Eyjolfsson Fine Jewellery ásamt eiginkonu sinni í Lundúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert