Stjörnuáhugamenn í Perlunni og á völdum stöðum

Venus eins og lítill díll á sólu.
Venus eins og lítill díll á sólu. Af vefnum: www.stjornufraedi.is

Sá einstaki stjarnfræðilegi atburður mun eiga sér stað að kvöldi 5. júní næstkomandi að ástarstjarnan Venus mun ganga fyrir sólu. Er Ísland eina landið í heiminum þar sem að sólin mun ná að setjast og rísa á meðan á viðburðinum stendur. Stjörnuáhugamenn verða vítt og breitt um landið að fylgjast með og bjóða almenningi að slást í hópinn, m.a. við Perluna.

Ekki aftur hér fyrr en árið 2247

Þvergangan, sem svo nefnist, mun sjást frá Íslandi upp úr kl. 22:04 og verður hægt að fylgjast með henni næstu sex klukkustundirnar á eftir. Ekki gefst færi á að fylgjast með fyrirbrigðinu aftur hér á landi í bráð eða fyrr en í júní árið 2247. Þannig að vilji menn nú á tímum bera dýrðina eigin augum gefst aðeins þetta eina tækifæri.

„Þetta er einn sjaldgæfasti stjarnfræðiviðburðurinn sem þó er hægt að sjá og því ætti enginn að láta hann framhjá sér fara,“segir Sævar Helgi Bragasonar, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, í tilkynningu. „Þetta er kannski ekki sama sjónarspil og sól-eða tunglmyrkvar en það er heillandi að sjá ástarstjörnuna setja svona fegurðarblett á sólina“.

Þvergöngur Venusar koma fyrir í pörum og þá með átta ára millibili. Að öðru leyti líða 105,5 ár á milli þess sem að þverganga Venusar á sér stað, segir Sævar í samtali við mbl.is. Síðast var hægt að sjá Venus ganga fyrir sólu hér á landi í júní árið 2004. Næsta fyrirganga plánetunnar verður árið 2117 en þá í desember þegar sól er utan sjóndeildarhringsins hér á landi segir Sævar Því er það ekki fyrr en árið 2247 sem að Íslendingar framtíðarinnar munu eiga þess kost að sjá fyrirbrigðið hér.

Mikilvægar fyrir kortlagningu himinhvolfsins

Þrátt fyrir að þvergöngur Venusar séu fyrst og fremst forvitnilegar í dag voru þær engu að síður afar mikilvægar fyrir vísindin fyrr á tímum að sögn Sævars. „Fyrsta þvergangan sást í nokkrar mínútur árið 1639 en þá höfðu menn þegar áttað sig á að hægt væri að nota þennan atburð til þess að m.a. reikna fjarlægðina til sólarinnar frá jörðu með hliðrun. Á 18. og 19. öld gerðu stórveldi þess tíma, s.s. Englendingar, Frakkar, Hollendingar og fleiri, út hópa af vísindamönnum um allan heim, í langa og kostnaðarsama túra, til að kanna fyrirbrigðið þar sem að það sást hverju sinni með fyrir sjónum að gera rannsóknir og mælingar sem að nýtast myndu við kortlagningu himinhvolfsins“.

Almenningi boðið að fylgjast með - erlendir ferðamenn á landinu af þessu tilefni

Þónokkrir erlendir gestir höfðu haft samband við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og forvitnast um hvað hægt yrði að fylgjast með fyrirgöngunni að sögn Sævars. Þá vissi hann af hópi erlendra ferðamanna sem að ætlaði að fylgjast með fyrirbærinu á Langanesi.  

Almenningi gefst kostur á að hitta á stjörnuáhugamennina þar sem að þeir verða að fylgjast með fyrirbrigðinu þar sem veður leyfir. Verða þeir m.a. við Perluna. Auk þess að fylgjast með viðburðinum gefst fólki færi á að kynna sér og prófa sjónauka ásamt því að fræðast um sólina, pláneturnar og annað sem viðkemur himinhvolfinu.

Hægt er að sjá hvar stjörnuáhugamennirnir verða á vef Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Fyrirganga Venusar fyrir sólu.
Fyrirganga Venusar fyrir sólu. Af vefnum: www.stjornufraedi.is
Stjörnuáhugamenn fylgjast með himinhvolfinu.
Stjörnuáhugamenn fylgjast með himinhvolfinu. Af vefnum: www.stjornufraedi.is
mbl.is

Bloggað um fréttina