Átök um borð í Baldri

Hafþór Júlíus Björnsson sést hér hífa upp 415 kílóum í …
Hafþór Júlíus Björnsson sést hér hífa upp 415 kílóum í réttstöðulyftu um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri. mbl.is/Sighvatur

Kraftakeppnin Vestfjarðavíkingurinn 2012 hófst í dag með látum þegar Hafþór Júlíus Björnsson, sem er sigurvegarinn frá því í fyrra, gerði sér lítið fyrir og lyfti 415 kílóum í réttstöðulyftu og setti nýtt Íslandsmet. Gamla metið var 410 kíló og það átti Magnús Ver Magnússon.

Keppnin hófst með tveimur greinum í dag. Í Stykkishólmi var keppt í bóndagöngu og réttstöðulyftan fór fram í Breiðafjarðarferjunni Baldri.

Magnús, sem er skipuleggjandi Vestfjarðavíkingsins, segir í samtali við mbl.is, að Hafþór hafi bætt Íslandsmetið í réttstöðulyftu um borð í ferjunni, en notast er við kassa í stað hefðbundinna lóða. Á ensku kallast greinin „silver dollar deadlift“.

„Mér líst hrikalega vel á þetta. Það var komin tími til að einhver bætti það,“ segir Magnús. Aðspurður telur hann að metið hafi staðið óhaggað í um áratug.

Þetta er í 20. sinn sem keppnin er haldin og stendur hún yfir fram á laugardag. Keppendur eru 12 talsins og á morgun verður keppt í bryggjupollaburði á Patreksfirði og í tunnuhleðslu í sundlauginni á Tálknafirði.

Á föstudag verður keppt í kútakasti yfir vegg í Bjarkarlundi og steinapressu á Reykhólum.

Síðustu tvær keppnisgreinarnar fara svo fram í Búðardal laugardag. Þá munu kraftajötnarnir spreyta sig í uxagöngu og steinataki.

„Það verður ekkert gefið eftir hjá þessum drengjum,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert