Mikil einföldun að ESB-aðild snúist um evru

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á opnum fundi í Valhöll í morgun, að það væri mikil einföldun að halda því fram, að Evrópusambandsmálið snerist einkum um að geta tekið upp evru sem gjaldmiðil.

„Innganga í Evrópusambandið er miklu stærra mál,“ sagði Bjarni. Hann sagði að með aðild myndu Íslendingar gefa frá sér stjórn á  stórum málum innanlands, svo sem á stjórn fiskveiða, og færa vald til miðstýringarinnar í Brussel.

„Það er barnaskapur að halda því, fram að niðurstaða Seðlabankans sé að við stöndum frammi fyrir tveimur valkostum. Því þeim kostum báðum fylgja annmarkar sem verða að vera með í umræðunni,“ sagði Bjarni og vísaði þar til skýrslu Seðlabankans um kosti í gjaldeyrismálum, sem kom út í vikunni.

Bjarni sagði að í umræðum um gjaldeyrishöftin birtust einnig miklar ranghugmyndir og það væri mikill misskilningur að halda, að Evrópusambandsaðild gæti losað Íslendinga við þá svonefndu snjóhengju af erlendum gjaldeyri, sem er aðalástæða þess að höftunum er viðhaldið. Enginn gæti losað Íslendinga við þá snjóhengju nema þjóðin sjálf. Íslendingar yrðu að nýta auðlindir sínar betur til að skapa verðmæti svo hægt væri að standa undir velferðarkerfinu og greiða vexti og afborganir af lánum. 

Þá sagði Bjarni að það ylli sér litlum áhyggjum að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna lýstu því nú yfir að þeir vildu einangra Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu kosningar til Alþingis. „Það er ekki bara vegna þess að ég sjái það í einhverjum könnunum, að þeir sem svona tala njóta ekki trausts í dag til að hafa meirihluta á þingi og nú þegar er ríkisstjórnin búin að fella dóm um sín störf með því að viðurkenna það, mörgum mánuðum fyrir kosningar, að hún er þegar fallin.

Í kosningum eiga menn að tala með virðingu um vilja kjósenda, það munum við gera. Mér finnst mestu skipta að eftir kosningar endurspeglist vilji kjósenda í stjórnarfarinu í landinu. Kjósi stjórnarflokkarnir að útiloka aðra er það ágætt því þá er myndin skýr og ljóst, að vilji menn breytingar eiga þeir ekki að kjósa annan hvorn þessara flokka, sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert