Styðja við bakið á Ingólfi

Ingólfur Júlíusson hefur starfað sjálfstætt frá árinu 2008.
Ingólfur Júlíusson hefur starfað sjálfstætt frá árinu 2008. Pressphotos.biz

Ljósmyndauppboð fer fram á morgun til styrktar Ingólfi Júlíussyni, ljósmyndara og margmiðlunarhönnuð, sem greindist með bráðahvítblæði í byrjun október, en hann hefur verið á sjúkrahúsi síðan.

Ingólfur hefur frá árinu 2008 starfað sjálfstætt, m.a. sem ljósmyndari fyrir Reuters hér á landi. Upp úr áramótum fer Ingólfur til Svíþjóðar þar sem hann mun gangast undir mergsskipti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hóp sem skipuleggur uppboðið.

„Samhugur félaga hans í stétt ljósmyndara varð til þess að þeir tóku höndum saman og ákváðu að aðstoða þennan hjartahreina og hlýja mann sem Ingólfur er. Það gera þeir til dæmis með þessu veglegasta ljósmyndauppboði Íslandssögunnar og styðja þannig fjárhagslega við bakið á honum og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum.

Á uppboðinu verður m.a. að finna málverk eftir Tolla, sem hann gaf sjálfur til söfnunarinnar, og myndavél sem 12 helstu ljósmyndarar landsins hafa tekið myndir á og áritað, en filman fylgir vélinni, óframkölluð, og því um einstakan grip að ræða. Margir helstu ljósmyndarar og blaðaljósmyndarar landsins gefa myndir á uppboðið,“ segir í tilkynningu. 

Uppboðið fer fram í Gyllta sal Hótel Borgar kl. 19 annað kvöld.

Hér má sjá myndirnar sem verða boðnar upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert