Andlát: Arnór K. Hannibalsson

Arnór Hannibalsson.
Arnór Hannibalsson.

Arnór K. Hannibalsson, prófessor emeritus í heimspeki við Háskóla Íslands, andaðist að heimili sínu, Hreggnasa í Kjós, föstudaginn 28. desember, 78 ára að aldri.

Hann fæddist að Strandseljum Í Ögurhreppi 24. mars 1934, sonur hjónanna Hannibals Valdimarssonar, verkalýðsleiðtoga, þingmanns og ráðherra, og Sólveigar Ólafsdóttur.

Arnór var kvæntur Nínu Sæunni Sveinsdóttur (f. 1935), viðskiptafræðingi og framhaldsskólakennara. Börn þeirra eru Ari, Kjartan, Auðunn, Hrafn og Þóra. Þau skildu árið 1995.

Arnór lauk meistaraprófi í heimspeki og sálfræði frá Moskvuháskóla 1959 og lagði síðan stund á framhaldsnám í heimspeki við háskólana í Kraká og Varsjá í Póllandi. Næstu árin stundaði Arnór ýmis störf á Íslandi, m.a. sem rithöfundur, ritstjóri og forstöðumaður Listasafns ASÍ. Árið 1969 hélt Arnór til Fribourg í Sviss og stundaði rannsóknir við háskólann þar og 1970 hóf hann doktorsnám í heimspeki við háskólann í Edinborg og lauk þaðan doktorsprófi 1973. Hann var skipaður lektor í heimspeki við Háskóla Íslands árið 1976, dósent árið 1983 og prófessor 1989. Hann lét af störfum við Háskóla Íslands á sjötugsafmælisárinu 2004.

Eftir hann liggja nokkrar bækur. Má þar nefna Valdið og þjóðin - safn greina um Sovétríkin, Moskvulínuna, Heimspeki félagsvísinda og Rökfræðilega aðferðafræði.

Arnór beitti sér fyrir sjálfstæði Eistlands, Litháens, Króatíu og annarra smáríkja sem liðið höfðu undir oki kommúnismans.

Hann var ræðismaður Litháens á Íslandi og veittu litháísk stjórnvöld honum heiðursorðu fyrir framlag hans til samskipta ríkjanna í heimsókn Daliu Grybauskaite, forseta Litháens, til Íslands.

Arnór var afkastamikill fræðimaður og eftir hann liggur fjöldi bóka og fræðigreina um ýmis fræði. Þá þýddi hann nokkur verka Platóns og Dostojevskís. Arnór sinnti fræðastörfum til dauðadags og vann m.a. að bók um sögu Póllands og útgáfu kennslurita í heimspeki, en Arnór var lengi eini löggilti skjalaþýðandinn og dómtúlkurinn úr pólsku hér á landi og lagði hann sig fram um að efla tengsl Íslands og Póllands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert