Kynferðisbrot kært á Þórshöfn

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Kona hefur kært karlmann fyrir kynferðisbrot sem var framið þegar hún var barn á áttunda áratug síðustu aldar. Meint brot stóðu yfir í nokkur ár. Málið var kært til lögreglunnar á Þórshöfn og kemur í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um kynferðisbrot gegn börnum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Þórshöfn er búið að vísa málinu til rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri.

Lögreglan á Þórshöfn á von því að önnur kona muni einnig leggja fram kæru gegn manninum. Vísbendingar séu um að maðurinn hafi alls brotið gegn 10 stúlkum í bænum.

Umrædd brot voru framin fyrir um 40 árum. Ekki er um nýrri brot að ræða samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Þetta er í fyrsta sinn sem maðurinn er kærður fyrir þessi brot. Hann tengist ekki þeirri umfjöllun sem verið hefur í Kastljósi eða í öðrum fjölmiðlum nýverið um kynferðisbrot gegn börnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert