Samstarfi við FBI hætt strax

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir í yfirlýsingu að um leið og hann frétti af komu fulltrúa FBI til landsins sumarið 2011 hafi hann krafist þess að öllu samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við þá yrði hætt. Ögmundur er staddur í Kína og kveðst ekki tjá sig frekar um málið að sinni.

Eftirfarandi upplýsingar fengust hjá innanríkisráðuneytinu:

„Innanríkisráðherra er staddur erlendis og mun að sinni ekki tjá sig nánar um þetta mál að öðru leyti en því sem hann þegar hefur gert, nefnilega að koma lögreglumanna á vegum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, til Íslands í lok ágúst 2011 hafi hvorki verið með hans vilja né vitund. Þegar honum hafi verið orðið kunnugt um komu þeirra til landsins og í hvaða erindagjörðum þeir væru hafi hann þegar í stað krafist þess að öllu samstarfi við þá yrði hætt af hálfu íslenskra lögregluyfirvalda og hafi hann gert utanríkisráðherra og fleiri ráðherrum grein fyrir málinu.“

Ræðir neytendamál og fleira við Kínverja

Ögmundur Jónasson er nú í tíu daga ferð til Kína, ásamt fjórum starfsmönnum innanríkisráðuneytisins. Fundað verður í Peking og Shanghai.

Að sögn Jóhannesar Tómassonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, er tilefni ferðarinnar heimsókn Wang Dongfengs, aðstoðarráðherra iðnaðar og viðskipta Kína, og fylgdarliðs til Íslands í júlí sl. Í heimsókninni bauð Wang Ögmundi að koma til Kína til að kynna sér neytendamál þar.

Í ferðinni muni Ögmundur ræða um neytendamál við kínverska embættismenn, skipst verður á upplýsingum og rætt um samstarf á þessu sviði. Jafnframt verði rætt um mögulega samninga á sviði flugmála og málefni sem tengjast ættleiðingum.

Möguleikar á loftferðasamningi og ættleiðingar á dagskránni

Að sögn Jóhannesar hafa íslensk fyrirtæki óskað eftir því að íslensk stjórnvöld hefji viðræður við Kína um möguleika á loftferðasamningi á milli landanna tveggja eða um einhvers konar heimildir fyrir íslensk flugfélög til að starfa þar í landi. Slíkar viðræður taki oft langan tíma og í ferðinni nú sé verið að kanna hvaða möguleikar séu fyrir hendi. Þá verði farið yfir samstarf um ættleiðingar en eins og kunnugt er hafa mörg kínversk börn verið ættleidd hingað til lands á undanförnum árum.

Í ferðinni eru, auk Ögmundar, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Hermann Sæmundsson sem er skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga, Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri skrifstofu innviða, og Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert