„Siggi hakkari“ á launaskrá FBI

Skjáskot af vef Wired.
Skjáskot af vef Wired.

Tæknitímaritið Wired hefur birt ítarlega umfjöllun um Sigurð Inga Þórðarson, sem hefur verið kallaður Siggi hakkari, undir yfirskriftinni „Sjálfboðaliði Wikileaks var uppljóstrari á launaskrá FBI“. Fjallað er um tengsl hans við Julian Assange, stofnanda Wikileaks, og samskipti við FBI (bandarísku alríkislögregluna).

Birt eru tölvupóstasamskipti sem eru sögð vera á milli fulltrúa FBI og Sigurðar, en blaðamaður Wired ræddi við Sigurð og fékk frá honum bæði gögn og ljósmyndir. Í fréttinni er einnig rætt við Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata.

Í greininni segir að Sigurður, sem er aðeins tvítugur, hafi starfað lengi sem sjálfboðaliði fyrir Wikileaks, haft beinan aðgang að Assange og verið í lykilstöðu sem skipuleggjandi.

Þjónaði tveimur herrum

„Þegar hann gekk inn í sendiráðið [bandaríska í Reykjavík í ágúst 2011] í kaldastríðsstíl, þá varð hann eitthvað annað: fyrsti uppljóstrari FBI innan Wikileaks sem vitað er um. Næstu þrjá mánuði þjónaði Sigurður tveimur herrum; hann vann fyrir uppljóstrunarvefsíðuna og á sama tíma upplýsti hann bandarísk stjórnvöld um leyndarmál hennar, og í staðinn, að hans sögn, fékk hann samtals um 5.000 dali (um 620 þúsund kr.),“ segir í frétt blaðamannsins Kevins Poulsens hjá Wired.

Þá segir að Sigurður hafi, í boði bandarísku alríkislögreglunnar, flogið til útlanda til að funda með fulltrúum FBI, m.a. til Washington. Á síðasta fundinum afhenti Sigurður þeim átta harða diska sem voru fullir af gögnum sem tengdust Wikileaks, s.s. myndskeið og samskipti á spjallvefjum.

Bent er á að það sé sjaldgæft að mönnum gefist tækifæri að fá innsýn inn í rannsókn bandarískra lögregluyfirvalda á Wikileaks. Tvöfalt líf Sigurðar sýni fram á hversu langt ríkisstjórn Bandaríkjanna sé reiðubúin að ganga til að elta uppi Julian Assange, með því að nálgast Wikileaks með aðferðum sem FBI þróaði í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi og tölvuglæpi. Aðferðirnar minni einnig á það hvernig starfsmenn FBI laumuðu sér inni í samtök sem berjast fyrir borgaralegum réttindum á tímum J. Edgar Hoover, fyrrverandi yfirmanns bandaríku alríkislögreglunnar.

Birgitta treysti ekki Sigurði

„Ég var viðstödd þegar Julian hitti hann [Sigurð] í fyrsta eða annað sinn,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Hún starfaði með Wikileaks í tenglsum við birtingu myndbands, sem kallaðist Collateral Murder, sem sýndi árás bandrískrar herþyrlu á almenna borgara í Írak.

„Ég varaði Julian við strax á fyrsta degi, það var eitthvað sem var ekki alveg í lagi í tengslum við þennan náunga [...] Ég bað um að hann yrði ekki hluti af Collateral Murder-teyminu,“ segir Birgitta. Hún segir ennfremur að Sigurður eigi mjög bágt með að segja mönnum satt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert