Klámvæðing leitt til hættulegrar þróunar

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Klámvæðing og útlitsdýrkun hefur leitt til hættulegrar þróunar, ekki síst varðandi kynheilbrigði kvenna. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi á Hótel KEA í dag sem haldinn var að frumkvæði Zontaklúbbanna á Akureyri á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Samfélagið allt, stjórnvöld, heilbrigðis- og menntakerfi og foreldrar, þarf að spyrna við fótum og berjast gegn  limlestingum á kynfærum kvenna en aðgerðir á kynfærum kvenna  hafa færst mjög í vöxt á síðustu árum. Sérstaklega hefur fjölgað aðgerðum þar sem innri skapabarmar kvenna eru skornir og styttir, segir í ályktuninni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO skilgreinir ýmsar aðgerðir á kynfærum kvenna sem limlestingar, til dæmis brottnám hluta kynfæra og það að setja lokka í kynfæri. 

Fundurinn skorar á Alþingi að setja hið allra fyrsta lög sem banna umskurð og aðrar limlestingar á kynfærum kvenna  í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

mbl.is