Sóðalegt við sendiráð Kína

Fasteign kínverska sendiráðsins að Víðmel 29 hefur nú staðið auð í eitt ár og umhverfið þar í kring má telja mjög illa hirt. Jónas Haraldsson vakti athygli á málinu í grein í Morgunblaðinu í dag og segir hann greinina vera áskorun til sendiráðsins um að selja fasteignina. Hann segir fasteignina ávallt hafa verið illa hirta og starfsmönnum sendiráðsins til vansæmdar.

Bakhlið sendiráðsins snýr að bakhlið húss Jónasar, en þar hefur hann búið í áratugi og bjó tengdamóðir hans þar áður. Vanhirðan hefur því lengi verið honum fyrir augum.

Kettir skríða inn í húsið

„Það má sjá allar tegundir af illgresi í garðinum, byrjað er að brotna úr húsinu og þykkt lag af mosa slikju er á tröppunumm,“ segir Jónas. Hann segir húsið eitt sinn hafa talist til betri bygginga í bænum, með koparþaki og steinað með silfurbergi og hrafntinnu, en nú sé tíðin önnur.

„Gluggar hafa sumir staðið opnir eins og skilið var við þá í fyrra sumar og því hefur bæði snjóað og rignt inn og húsið liggur undir skemmdum.“ Þá segir hann mikið af köttum væflast í kringum mannlaust húsið. „ Ég sé þá vera að skríða inn um kjallaraglugga og oft lenda þeir í vandræðum á svölunum. Ég held ég geti fullyrt að enginn maður hefur komið þangað síðan í fyrrasumar.“

Slógu grasið í Maóklæðnaði

Kínverska alþýðulýðveldið keypti húsið árið 1973 og segir Jónas að skondið hafi verið að fylgjast með tilburðum starfsmanna sendiráðsins til að byrja með. „Ég sat oft í eldhúsinu hjá tengdamóður minni og fylgdist með þeim í Maóklæðnaði að slá garðinn með frumstæðum verkfærum.“ Í fyrstu hélt hann að þeir væru einungis óvanir og taldi að umgengni þeirra við umhverfið myndi lagast, en með tímanum segir hann ekkert hafa breyst, fyrir utan klæðaburðinn og fasið sem varð vestrænna. 

Ástandið segir hann aldrei hafa verið verra en nú. „Þeir slógu yfirleitt tvisvar á ári þegar allt var orðið kafloðið og eyðilögðu gjarnan sláttuvélarnar á járnrusli sem lá í garðinum. Maður var farinn að þjálfa tóneyrað á að hlusta eftir því hvernig járni þeir væru nú að eyðileggja vélarnar. Hvort það væri vinkill eða flatt járn,“ segir hann glettinn.

„Gróðurhúsið er til skammar“

Nágrannar í hverfinu hafa hingað til ekki mikið kvartað undan vanhirðunni, en þeim var þó nóg boðið þegar til stóð að breyta garðinum í bílastæði og bílskýli, þar sem slíkt myndi skjóta skökku við í svo gömlu og grónu hverfi. „Þegar við kvörtuðum undan því sögðu þeir okkur að vera ekki svona diplómat og tala bara við þá eins og nágranna. Þá gerðum við athugasemd við gróðurhúsið sem var orðið skelfilegt. Við sögðum það vera til skammar og þá löguðu þeir það,“ segir Jónas, en honum finnst skrýtið hversu ónæmir þeir virðist vera fyrir umhverfinu.

Taka sig á ef þeir ætla að vera hér á landi

Jónas segir sendiráð eiga að vera andlit þjóðar sinnar út á við í viðkomandi landi og sóðaskapurinn sé því ekki góð landkynning fyrir Kínverja og þá sér í lagi ef þeir hafi áhuga á að reka hér á landi einhverja starfsemi í framtíðinni. „Ég er að vara við þeim. Ef þeir ætla að vera hér á landi þýðir ekki að vera með svona umhverfissóðaskap.“  

„Ekki er hægt að líta á hús sem einhvern hlut eða drasl, sem eigandinn er hættur að nota eða búinn að fá leið á og hefur hent út í kompu, en ætlar kannski að nota einhvern tímann í framtíðinni ef svo ber undir. Hér mætti taka tillit til okkar næstu nágranna.“

Ekki náðist í starfsmenn sendiráðs Kína við vinnslu fréttarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert