Aðstoðuðu í máli Annþórs og Barkar

Börkur Birgisson.
Börkur Birgisson. mbl.is

„Menn treysta því að lögregla endurriti orðrétt en það virðist ekki hafa verið gert í þessu máli,“ segir Guðmundur Sveinn Einarsson en hann ásamt þremur öðrum laganemum við Háskólann á Bifröst gerði rannsókn á gögnum í máli ákæruvaldsins gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni.

Bæði er um að ræða laganema í grunnnámi og meistaranámi. Guðmundur Sveinn segir að málið hafi verið til nokkurrar umfjöllunar í skólanum, ekki síst sá angi þess þegar verjendum var neitað um afrit af mynddiskum með yfirheyrslum yfir vitnum og sakborningum. „Svo skoðuðum við forsendur héraðsdómsins og okkur þótti sem þeir væru dæmdir til mjög þungra refsinga á líkindum einum. Þannig að við ákváðum að skoða þetta nánar.“

Laganemarnir höfðu samband við lögmenn Annþórs og Barkar og fengu gögn málsins, þar með talið mynddiskana en þeir voru afhentir einum verjanda við meðferð málsins í héraði fyrir mistök, eins og greint var frá á mbl.is á sínum tíma. Þá hófst mikil vinna við að horfa á alls um 560 mínútur af upptökum og skrifa upp skýrslutökur yfir vitnum og sakborningum orðrétt. Eftir það tók svo við að bera endurritin saman við samantektir lögreglu sem lagðar voru fram sem gögn í málinu.

Í fyrstu var til umræðu að gera úr þessu rannsókn sem nýst gæti til mastersverkefnis en það datt upp fyrir. Hins vegar sendu laganemarnir verjendum Annþórs og Barkar niðurstöður sínar og nýttust þær við meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Guðmundur Sveinn segir einnig að þar sem fremur stutt sé síðan farið var að taka yfirheyrslur upp í hljóði og mynd og leggja fram samantektir lögreglu hafi þetta verið tilvalið verkefni fyrir laganema. Með því hafi þeir getað náð sér í reynslu og sinnt lögmannsstörfum. Áður fyrr hafi skýrslutökurnar verið skrifaðar orðrétt upp.

Hann segir ljóst að ef lögregla skrifar ekki rétt upp eftir vitnum og sakborningum geti framburðum verið breytt í sakfellandi að ósekju. Meðal þess sem Guðmundur nefnir er að sakborningur var spurður að því við yfirheyrslur hverjir voru með á honum á vettvangi og nefndi sá nokkur nöfn. Í samantekt lögreglu var hins vegar búið að breyta spurningunni og var sakborningurinn þar spurður hverjir voru með honum á vettvangi og tóku þátt í árásinni. Við hafi svo staðið sama svar. „Það er töluverður munur á því að vera á vettvangi og að vera á vettvangi og taka þátt í árás,“ segir Guðmundur.

Sláandi að ekki sé hægt að treysta lögreglunni

Hæstaréttarlögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson varði Annþór Kristján í Hæstarétti. „Það er alveg ljóst að það vakti mikla athygli í þessu máli hið mikla misræmi sem var á milli hinna svokölluðu samantekta sem lögreglumenn tóku saman um skýrslur sem sakborningar og vitni gáfu hjá lögreglu og svo það sem í raun heyrðist þegar hlustað var á upptökur af yfirheyrslunum.“

Hann segir að styr hafi staðið um þessa aðferð lögreglunnar og að Hæstiréttur hafi staðfest að verjendur eigi ekki að fá afhenta diska með upptökum af yfirheyrslum. Í þessu máli hafi það þó gerst að diskarnir voru afhentir fyrir mistök. „Maður hefur viljað treysta því að þessar samantektir séu réttar og það var dálítið sláandi að ekki hafi verið hægt að treysta því. Það voru þarna dæmi um að samantektir og yfirheyrslur fóru ekki saman og það munaði miklu í sumum tilvikum.“ Það geti haft mikil áhrif ef dómari hlusti ekki á upptökurnar.

Meðal dæma sem Sveinn Andri nefnir er að vitni var spurt hvort tveir menn á vettvangi í einum ákæruliðnum hefðu getað yfirgefið svæðið. Á upptökum megi heyra að vitnið segi að þeir hefðu getað gert það. Þá sé spurningin margendurtekin og umorðuð í hvert skipti. Fór svo að þegar vitnið var spurt að því hvort Annþór hefði leyft þeim að fara sagðist hann halda ekki. „En í samantektinni er öllum spurningum á undan sleppt þar sem hann fullyrðir að þeim hafi verið frjálst að fara. Þannig að virðist sem það hafi verið valið sem talið var henta.“

Fyrir Hæstarétti sagði Sveinn Andri ljóst að Annþór og Börkur hefðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og að vinnubrögð lögreglu væru í raun forkastanleg. Hann sagði það skína í gegn að tekið hefði verið það sem hentaði til sakfellingar og svör lögreglumanns um þessi atriði hefðu verið út í hött. „Það er ekki gott þegar verjendur geta ekki treyst því sem lögregla lætur fram í málinu og það þurfi að stemma af alla hluti. Réttaráhrif af þessu ættu að vera ómerking eða sýkna. Vegna þessara vinnubragða er margt í rannsókn og málsmeðferð sem verður að ýta til hliðar,“ sagði Sveinn Andri fyrir Hæstarétti.

Í samtali við mbl.is segir Sveinn Andri að þetta sé grófasta dæmi sem hann hafi séð af misræmi milli samantekta lögreglu og yfirheyrslunum sjálfum. Það að saksóknari hafi sjálfur látið taka saman orðrétt endurrit og lagt fyrir Hæstarétt sýni að hann var á því að þessar samantektir væru ekki boðlegar.

Saksóknari viðurkenndi misræmið

Saksóknari sagði fyrir Hæstarétti að taka mætti undir athugasemdir verjenda Annþórs og Barkar að einhverju leyti, þá um að samantektir hefðu ekki verið nægilega nákvæmar. Hann sagði héraðsdóm hins vegar hafa lagt til grundvallar sönnunar heildstætt mat og að hann teldi því ekki líkur á að niðurstaðan yrði ómerkt eða Annþór og Börkur sýknaðir.

Sveinn Andri segir að það hafi verið sérstaklega athyglisvert að saksóknari hafi viðurkennt fyrir Hæstarétti að samantektirnar hafi verið gallaðar. „Hann viðurkenndi að þarna væri óásættanlegt misræmi.“ Það sé svo Hæstaréttar að eiga síðasta orðið.

Þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness benti verjandi Barkar meðal annars á að dómarar hefðu byggt á þessum samantektum, meðal annars þegar þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Verjandi Annþórs sagði að þessi vinnubrögð bentu til þess að markmiðið hefði verið að „negla“ þá Annþór og Börk.

Annþór Kristján Karlsson.
Annþór Kristján Karlsson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina