405 tonn af klementínum fyrir jólin

Klementínur
Klementínur BBC

Í fyrra voru að minnsta kosti 156 þúsund klementínukassar seldir í verslunum hér á landi fyrir jólin. Klementínurnar þykja sérstaklega góðar á þessum tíma árs, í nóvember og desember, og eru kaup á kassa af ávextinum fastur liður hjá mörgum í aðdraganda jólanna.

Vissulega eru klementínurnar fáanlegar allan ársins hring en í byrjun desember kemur á markaðinn fyrsta uppskera frá Spáni, sem venjulega þykir vera sú besta, en uppskerutími klementína frá Spáni er frá nóvember fram í apríl.

Klementínurnar fyrr á ferðinni í ár

Fyrirtækið Bananar flytur inn klementínur fyrir nokkrar matvöruverslanir hér á landi. Að sögn Örvars Karlssonar, markaðs- og sölustjóra hjá fyrirtækinu, seldi fyrirtækið 156 þúsund klementínukassa fyrir jólin í fyrra og 249 tonn af klementínum í lausasölu. Í heildina seldu Bananar um 405 tonn í nóvember og desember í fyrra. 

Þess má geta að fyrirtækið þjónustar ekki allar matvöruverslanir hér á landi og því má gera ráð fyrir að enn fleiri klementínur fari út fyrir hver jól. 

Að sögn Örvars eru klementínurnar heldur fyrr á ferðinni í ár en í fyrra. Fyrstu kassarnir komu í verslanir 4. nóvember síðastliðinn, viku fyrr en árið 2012. Var uppskeran á Spáni fyrr á ferðinni núna og því njóta landsmenn klementínanna fyrr.

Á Vísindavefnum segir að á öðrum árstímum séu keyptar inn mandarínur frá öðrum löndum þar sem uppskera er hverju sinni. Eftir að tímabilinu lýkur á Spáni taka Marokkó og Egyptaland við og þaðan koma mandarínur fram í maí eða júní. Frá júní og fram í nóvember eru fluttar inn mandarínur frá Argentínu eða Suður-Afríku.

Klementínur eru kynbætt, steinlaust afbirgði af mandarínum.

mbl.is