Framleiða 10 milljónir konfektmola

Konfekt.
Konfekt. Af vef Wikipedia.

Fyrir jólin í fyrra framleiddi sælgætisverksmiðjan Nói-Síríus 10 milljónir konfektmola. Að sögn Kristjáns Geirs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs hjá fyrirtækinu, fóru langflestir molarnir út.

Mörgum þykir ómissandi að baka smákökur og útbúa heitt súkkulaði á þessum tíma árs. Suðusúkkulaðið hefur verið vinsæl vara hér á landi í gegnum tíðina og er hún jafnan í plötuformi. Fyrir jólin í fyrra framleiddi Nói-Síríus 280 þúsund slíkar plötur. Ein plata er 100 grömm og því má gera ráð fyrir að landsmenn hafi keypt um 28 tonn af súkkulaðinu fyrir jólahátíðina í fyrra.

Í ár ákvað starfsfólk Nóa-Síríusar að bregða á leik og hóf sölu á svokallaðri hátíðarútgáfu af súkkulaðinu Nizza, en nú er hægt að kaupa súkkulaðið með piparkökumulningi í. En af hverju?

Fyrirtækið prófar reglulega nýja hluti þegar kemur að framleiðslu sælgætis, til að mynda fyrir jól og páska, og eru þær útgáfur stundum aðeins fáanlegar í ákveðinn tíma. Að sögn Kristjáns Geirs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs hjá fyrirtækinu, hefur súkkulaðið fengið afar góðar viðtökur, mun betri en fyrirtækið þorði að vona. Öll stykkin sem verða framleidd þessi jól, eða 45 þúsund, eru þegar farin í verslanir.

Frétt mbl.is: 405 tonn af klementínum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert