Skömmin er Íslandspósts

Íslandspóstur
Íslandspóstur Ómar Óskarsson

Íslandspóstur hóf um áramót að taka gjald fyrir það að „leita að reikningi“. Gjaldið er rukkað þegar opna þarf sendingu erlendis frá til að leita að reikningi. Bætist gjaldið við ákveðið tollmeðferðargjald sem lagt er á sendingar. Neytendasamtökin hvetja Íslandspóst til að hætta við þessa gjaldtöku.

„Hingað til hefur leit að reikningi verið ókeypis enda er ákveðið tollmeðferðargjald lagt á sendingar að upphæð 550 kr. Gjaldið vegna leitarinnar kemur því ofan á það gjald. Neytendasamtökin hafa áhyggjur af því að með þessu nýja gjaldi sé póstverslun gert enn erfiðara fyrir og gjaldtakan muni hindra samkeppni enn frekar,“ segir á vefsvæði Neytendasamtakanna en nýja gjaldið nemur 500 krónum.

Þar er einnig á það bent að þetta gerist á sama tíma og almenn sátt virðist ríkja í samfélaginu um að veita verðbólgunni viðnám með því að hækka ekki verð og bæta þannig kjör almennings í landinu. „Sérstök ástæða er fyrir fyrirtæki eins og Íslandspóst, sem eru að fullu í eigu ríkisins, til að vera öðrum fyrirtækjum fyrirmynd að þessu leyti. Er skömm fyrirtækisins því enn meiri af þeim sökum.“

Þá segja Neytendasamtökin að Íslandspóstur eigi jafnframt að draga til baka nýlegar hækkanir á gjaldskrá sinni, en fyrirtækið er á svörtum lista Alþýðusambands Íslands vegna þessara gjaldskrárhækkana.

mbl.is