Þjálfarar séu ekki einir með iðkendum

Þjálfarar eiga ekki að setja sig í aðstæður þar sem þeir eru einir með iðkanda því þar skapast aðstæður sem geti orkað tvímælis ef upp koma ásakanir um ósæmilegt athæfi. Þetta segir Hafdís Inga Hinriksdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik og BA í félagsrágjöf, en hún ræddi um kynferðislegt ofbeldi í íþróttum fyrir helgi á súpufundi KSÍ fyrir helgi.

Hún segir nauðsynlegt að íþróttafélög móti sér skýra verkferla og siðareglur sem verndi bæði börnin og starfsmenn íþróttahreyfingarinnar. Íþrótta- og ólympíusamband Íslands stendur nú fyrir átaki í þeim málum og gaf nýlega út bækling um efnið ásamt því að Hafdís býður upp á að halda fyrirlestra fyrir félögin. 

Hafdís segir að á löngum ferli sínum hafi hún margoft lent í aðstæðum sem hafi verið óþægilegar. Busavígslur í landsliðinu þar sem hún var flengd af öllu landsliðinu í sturtu sé gott dæmi um hefðir sem eigi ekki að láta viðgangast og þá hafi þjálfarar oft reynt við hana.

Sambönd þjálfara og iðkenda segir Hafdís t.d. vera eitthvað sem nauðsynlegt sé að félögin setji reglur um. Valdaójafnvægið sem sé að finna í sambandi þjálfara og iðkanda geti verið óheilbrigt en allt ofbeldi sem sé að finna innan íþróttahreyfingarinnar byggist einmitt á slíku ójafnvægi. 

Hún segir margt vera nauðsynlegt að hugsa til enda t.a.m. hvernig svefnfyrirkomuleg er á ferðalögum, hvort þjálfarar eigi að vera með iðkendur sem vini á Facebook og hvort þeir eigi yfir höfuð að vingast persónulega við iðkendur sína. Þetta séu allt mál sem íþróttafélög þurfi að taka afstöðu til hvernig skuli háttað og séu skýr í siðareglum félaga.

Hafdís segir að umræða af þessu tagi hafi lengi verið viðkvæm innan hreyfingarinnar þó að ýmislegt hafi breyst á undaförnum misserum en markmiðið með henni sé að gera starfið faglegra og betra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert